Fjármálaráðherra segist vera reiðubúinn til viðræðna við fulltrúa atvinnubílstjóra, sem staðið hafa fyrir mótmælum á götum borgarinnar undanfarna daga og krafist þess að álögur á eldsneyti verði lækkaðar.
„Ef þeir vilja tala við mig þá er sjálfsagt að finna einhvern flöt á því,“ segir Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar reyni ávallt að vera aðgengilegir fólkinu í landinu til að ræða mikilvæg mál.
Árni segir að aðgerðir atvinnubílstjóranna séu ekkert sérstaklega uppbyggileg sem fyrstu skref í því að gera breytingar á kerfinu. „Maður veit þó aldrei hvaða gott getur komið út úr hlutunum.“
Aðspurður um hvort ríkið hyggist lækka álögur á eldsneyti segir Árni að nú séu starfandi þrjár nefndir á vegum ríkisstjórnarinnar sem hafi þessi mál til skoðunar.
Í fyrsta lagi nefnd sem á að gera breytingar á gjaldtöku á farartækjum og eldsneyti, með tilliti til að samræma hana og gera hana umverfisvænni. Árni segir að von sé á skýrslu frá nefndinni innan tíðar.
Í öðru lagi er starfandi nefnd á vegum samgönguráðuneytisins sem skoðar almenningssamgöngur.
Í þriðja lagi nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins sem skoðar samgöngur á landsbyggðinni, og hugsanlega jöfnun á þeim kostnaði.
„Ég held að við ættum að fara varlega í það að gera einhverjar breytingar í fljótræði. Við viljum auðvitað hafa hér kerfi sem skilar því sem það á að skila, og er ekki sífellt verið að breyta og hringla í,“ segir Árni.