Gæsluvarðhald yfir tveimur árásarmönnum staðfest

Hæstiréttur hefur staðfest úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um að tveir Pólverjar, sem grunaðir eru um að hafa tekið þátt í árás á hóp landa sinna í húsi í Reykjavík um páskahelgina sæti gæsluvarðhaldi til 14. apríl. Áður höfðu fjórir menn verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins.

Annar mannanna var handtekinn í Reykjanesbæ nokkrum dögum eftir árásina og hinn gaf sig fram við lögreglu eftir að lýst hafði verð eftir honum í fjölmiðlum en menn úr hópi þeirra, sem ráðist var á, báru að mennirnir tveir hefðu verið í hópi árásarmanna.

Annar mannanna sagðist við yfirheyrslur hafa verið að þvo þvott og horfa á myndir í tölvu daginn sem árásin var gerð. Um kvöldið sagðist hann hafa verið sofandi en varð tvísaga um hvort það hefði verið heima hjá honum eða á hóteli, þar sem hann sagðist hafa verið í partíi. Segir í úrskurði héraðsdóms að lögregla telji framburð mannsins afar ótrúverðugan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert