Gunnar Örn Gunnarsson listmálari lést sl. föstudag á bráðadeild Landspítalans 61 árs að aldri. Gunnar fæddist í Reykjavík 2. desember 1946. Foreldrar hans voru Guðríður M. Pétursdóttir húsmóðir og Gunnar Óskarsson móttökustjóri.
Gunnar hélt sína fyrstu einkasýningu í Unuhúsi 1970 en alls urðu einkasýningar hans hér á landi og erlendis á sjötta tug. Gunnar tók þátt í fjölda samsýninga hér á landi, á öllum Norðurlöndunum, víða um Evrópu, í New York, Chicago, Sao Paulo og Tókýó. Hann var fulltrúi Íslands á Tvíæringnum í Feneyjum 1988. Verk hans eru í eigu safna víða um heim, m.a. í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Keflavíkur, Listasafns ASÍ, Listasafns Háskólans í Reykjavík, Listasafns Háskóla Íslands, Guggenheim Museum í New York, Sabu Museum í Tókýó, Moderna Museet og National Museum í Stokkhólmi.
Gunnar stofnaði og rak til dauðadags alþjóðlegt gallerí, Galleri Kamb, á heimili sínu á Kambi í Holta- og Landsveit, Rangárvallarsýslu, og stóð þar fyrir fjölda sýninga íslenskra og erlendra listamanna. Gunnar hlaut Menningarverðlaun DV 1987. Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Þórdís Ingólfsdóttir heilsuhjúkrunarfræðingur. Hann lætur eftir sig sex börn og níu barnabörn.