Kafbátur í hvalaskoðun

Ungur Dalvíkingur, Freyr Antonsson, er með í athugun möguleikana á því að gera út kafbát frá Dalvík til hvala- og neðansjávarskoðunar. Kafbáturinn tæki 24-36 manns og gæti siglt bæði á yfirborðinu og neðansjávar. Til stendur að fenginn verði tveggja manna kafbátur hingað til lands í sumar til að kanna aðstæður í hafinu hér við land til slíkrar starfsemi.

Freyr sagðist í samtali við Morgunblaðið hafa fengið hugmyndina í fyrrasumar og þróað hana samfara námi sínu í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri í vetur. Þetta væri mjög dýrt í framkvæmd en hann byndi vonir við að þetta væri eitthvað sem mikill áhugi yrði fyrir. Miklu um framhaldið réði hins vegar hvernig til tækist um rannsóknina í sumar. „Það veltur mjög mikið á henni hvernig þessi vara, að kaupa far með svona kafbát, er, hvort það er stórkostleg upplifun eða ekki. Ef það er mikil upplifun held ég að hægt sé að selja þetta og þá er kostnaðurinn orðinn viðráðanlegur.“ 

Freyr sagði að sá kafbátur sem hann hefði í sigtinu kostaði um 400 milljónir króna og tæki 24-36 manns eftir útfærslu og væri smíðaður í Bandaríkjunum. Hefði hann aldrei verið útbúinn fyrir ferðamenn, heldur eingöngu sem snekkja fyrir auðmenn. Sá kafbátur, sem myndin væri af hér til hliðar, gengi fyrir dísilolíu þegar hann sigldi á yfirborðinu en rafmagni þegar hann kafaði, en hann gæti farið á 300 metra dýpi. Ganghraðinn á yfirborðinu væri 12 sjómílur og 5-6 sjómílur í kafi. Það væri því hægt að fara mjög víða og hugmyndin væri að fylgjast með hvölum neðansjávar. Samkvæmt viðskiptaáætlunum þyrfti 15 þús. ferðamenn á ári til þess að dæmið gengi upp.

Í hnotskurn

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert