Sturla Jónsson, forsvarsmaður bílstjóranna sem stöðvuðu umferð í Ártúnsbrekku í hátt í klukkutíma í morgun, sagði í samtali við blaðamann mbl.is að alltaf hafi staðið til að aðgerðirnar stæðu í klukkutíma og að þeim hafi verið hætt í sátt við lögreglu.
Hann og annar maður hafi hins vegar verið færðir nauðugir inn í lögreglubíla og líti hann svo á að hann hafi verið handtekinn. Hann viti þó ekki hvort um formlega handtöku hafi verið að ræða. Hann hafi rætt við lögreglumenn inni í bílnum en ekki fylgst með því hvað lögreglumaður sem sat fyrir aftan hann í bílnum hafi verið að skrifa niður.
Þá sagði Sturla frekari aðgerðir ekki standa til að hálfu bílstjóra en að hann voni að aðgerðir þeirra verði til þess ráðamenn vakni af svefninum og Íslendingar rísi upp og láti ekki kúga sig lengur.
Með aðgerðum sínum vilja vörubílstjórar mótmæla hárri álagningu ríkisins á eldsneyti sem skilar sér í hærra eldsneytisverði, einhliða hvíldarlögum ríkisins og lélegri aðstöðu fyrir vörubílstjóra til að njóta þeirrar hvíldar sem gert er ráðfyrir í umræddum lögum.