Nýsköpunarháskólinn er heitið á væntanlegri háskólastofnun á Helsinki-svæðinu. Hugmyndir um samruna þriggja af stærstu og kunnustu háskólum Finnlands hafa verið í umræðunni síðustu misserin, og fjölmennur hópur starfað að því að hrinda henni í framkvæmd. Nú er stefnt að því að hefja skráningu stúdenta í skólann á komandi hausti.
Hinn nýi Nýsköpunarháskóli er eitt megináhersluatriðið í þeim markmiðum finnskra stjórnvalda að styrkja æðri menntun í landinu enn frekar og gera hana samkeppnishæfari á alþjóðlegum vettvangi. Stjórnvöld munu stuðla að því að nýi háskólinn hafi auki sjálfræði fjárhags- og stjórnunarlega.
Skólarnir sem steypt verður saman eru Viðskiptaháskólinn (HSE), Tækniháskólinn (THH) og Listaháskólinn (TaiK). Markmiðið með samrunanum er að nota rannsóknir og menntun til að stuðla að frekari velgengni finnsku þjóðarinnar. Á sama tíma er skólanum ætlað að styrkja samfélagið; tæknina, viðskiptalífið, og menninguna, og styrkja ímynd landsins.
Mauri Airila, sem stýrir samrunanefndinni, var hér á landi í liðinni viku og flutti fyrirlestur um hinn nýja háskóla við verkfræðideild Háskóla Íslands. Airila hefur verið prófessor við vélahönnunardeild TKK frá árinu 1993. Hann segir hinn að nýi Nýsköpunarháskóli muni breyta háskólaumhverfinu í Finnlandi.
„Þessir þrír háskólar eru allir góðir á sínu sviði en það eru nokkrar ástæður fyrir því að við ákváðum að steypa þeim saman. Í Finnlandi eru yfir 20 háskólar og 30 tækniskólar, auk annarra stofnana á háskólastigi. Á Helsinki-svæðinu einu eru tíu háskólar.