Fjöldi fyrirtækja þurfti að loka vegna rafmagnsleysis sem varði tímunum saman í Mosfellsbæ, Kjalarnesi, hluta Grafarvogs og í Grafarholti í dag. Viðskiptavinir þurftu því víða frá að hverfa og má gera ráð fyrir að einhver fyrirtæki hafi orðið fyrir fjárhagstjóni þar sem bilunin reyndist ansi löng og mjög óheppileg fyrir marga.
Rafmagnið fór af um hádegisbilið þegar bilun varð á aðalæð háspennu við Spöngina, en við það kom mikið högg inn á kerfið sem varð til þess að Nesjavallalínu sló út. Svo óheppilega vildi til að ekki var heldur hægt að tengja framhjá biluninni því verið var að vinna að viðhaldi á háspennustreng frá Geithálsi að tengivirkinu í Korpu á sama tíma.
Komist var fyrir bilunina laust fyrir klukkan fimm í dag, en samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur eru um tuttugu ár síðan rafmagnsleysi hefur varað í jafn langan tíma og þetta. Á fjórða tug þúsunda íbúa og fjöldi fyrirtækja eru á því svæði sem varð fyrir barðinu á biluninni.