Ítrekar efasemdir um skipulagsbreytingar á Suðurnesjum

Rætt var um skipulagsmál löggæslunnar á Suðurnesjum á Alþingi í …
Rætt var um skipulagsmál löggæslunnar á Suðurnesjum á Alþingi í dag. mbl.is/Kristinn

Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, ítrekaði þá skoðun á Alþingi í dag, að það þyrftu allt önnur rök, sem komið hefðu fram til þessa, til að sannfæra hann um gagnsemi þess að skipta upp lög- og tollgæslu á Suðurnesjum.  Árni Páll Árnason, flokksbróðir hans, sagði einnig mikilvægt að kalla eftir faglegum rökum fyrir þessari ákvörðun.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði Lúðvík í upphafi þingfundar um yfirlýsingu sem hann gaf á Alþingi í gær að hann hefði efasemdir um að skipta upp lög- og tollgæslunni á Suðurnesjum.

Lúðvík sagði meginatriðið væri að lögreglan fengi vinnufrið til að tryggja öryggi borgarinnar. Þá sagði Lúðvík ljóst, að engin vandræði hefðu verið hjá lögreglustjóraembættinu á Suðurnesjum. Því væri ljóst að veigamikil rök þyrftu til að breyta fyrirkomulagi, sem gengi vel og því hefði hann miklar efasemdir um fyrirhugaðar skipulagsbreytingar.

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði ljóst að áform dómsmálaráðherra gengju út á að færa stjórnsýslumál á Keflavíkurflugvelli í þau horf sem stjórnsýsla þessara mála væri almennt í á landinu. Birgir sagði, að þetta útilokaði ekki að það góða og nána  samstarf sem verið hafi milli þessara mismunandi greina ríkisvaldsins haldi áfram en það muni hjálpa til að ná utan um fjármuni í þessari starfsemi að skýra stjórnsýslulega og rekstrarlega ábyrgð betur.

Guðni Ágústsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði að sundra ætti fylkingu, sem standi vörð við Íslands dyr. Standa yrði vörð um hið mikla starf sem lögreglan og tollgæslan hefðu unnið á Keflavíkurflugvelli síðustu 16 mánuði.

Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að sér þætti mestu skipta, að hrófla ekki við því sem vel væri gert og staðreyndin væri sú, að starfsemin í Keflavík hefði skilað miklum árangri. Því væri brýnt að kalla eftir faglegum rökum fyrir ákvörðun af þessum toga og mikilvægt væri að fara að með gát þegar í hlut ættu embætti, sem hefðu sýnt gríðarlegan árangur. „Mér finnst þau rök, að fella beri það sem heyrir til fjármálaráðherra til hans, og síðan eigi að setja löggæslu undir dómsmálaráðuneytið ekki sérlega þungvæg enda er hægt að ná þeim árangri án þess að brjóta embættið upp.

Siv sagði ljóst að í þessu máli væri stál í stál og slagsmál milli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Kallaði hún eftir svörum frá þingmönnum Samfylkingarinnar um hvort flokkurinn ætli að samþykkja þessar breytingar eða ekki.

Lúðvík sagði, að allt önnur rök þyrftu, en komið hefðu fram, til að sannfæra hann um réttmæti þessara breytinga. Þá sagði hann að meginreglan væri á öllu landinu nema á höfuðborgarsvæðinu, að sami lögreglustjóri væri yfir tollinum og lögreglunni. Því væri sú breyting, sem boðuð hefðu verið á Suðurnesjum, undantekning frá meginreglunni.

„Ég met það þannig, að verði þetta brotið upp muni það til lengri tíma skaða embættið og starfið unnið er þarna suðurfr og ég mun ekki taka þátt í því," sagði Lúðvík.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert