Krefst upplýsinga frá FÍS

„Hagsmunaaðilar á markaði þurfa að fara gætilega í opinberri umfjöllun um verðhækkanir. Í slíkri umfjöllun kunna að felast brot á samkeppnislögum.“ Þetta segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, en að undanförnu hafa m.a. forsvarsmenn Bændasamtakanna og framkvæmdastjóri Félags íslenskra stórkaupmanna fjallað opinberlega um nauðsyn verðhækkana.

Samkeppniseftirlitið óskaði fyrir helgi eftir gögnum frá Bændasamtökunum sem tengjast búnaðarþingi svo og gögnum sem tengjast umfjöllun um verðlagningu á svína-, alifugla-, hrossakjöti og grænmeti. Páll Gunnar sagði að þarna væri verið að óska eftir skýringum og upplýsingum. Um væri að ræða hefðbundna athugun sem væri liður í eftirliti stofnunarinnar. Engin niðurstaða lægi fyrir.

Páll Gunnar sagði að þegar samtök fyrirtækja fjölluðu um verðlagningu þá vekti það alltaf athygli Samkeppniseftirlitsins. „Við munum fylgjast mjög vel með því að það sé ekki verið að nýta aðstæður og fjölmiðla til þess að koma af stað verðhækkunum sem grundvallast á samráði og eiga sér ekki eðlilegar forsendur.“

Að því er varðar yfirlýsingar Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Félags íslenskra stórkaupmanna, um að fram undan væru 20–30% hækkanir á matvöruverði, sagði Páll Gunnar að Samkeppniseftirlitið hefði tekið þau ummæli til athugunar og óskað upplýsinga og skýringa.

Páll Gunnar lagði áherslu á að breytingar á verði vöru yrðu að byggja á sjálfstæðri ákvörðun viðkomandi fyrirtækis. Samtök fyrirtækja mættu með engu móti vinna gegn þessu sjálfstæði félagsmanna sinna með því t.d. að hvetja til eða réttlæta verðhækkanir. „Það er athugunarefni hvort verið sé að gefa keppinautum skilaboð um hvað gera skuli.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert