Umferðin í miðborginni stíflaðist síðdegis í dag þegar félagar í Ferðaklúbbnum 4x4 og atvinnubílstjórar fjölmenntu til að krefjast þess að álögur á eldsneyti verði lækkaðar. Skipuleggjendur mótmælanna vonast til að skilaboðin nái í gegn til stjórnvalda. Þeir óttast hins vegar að svo geri ekki.
Mótmælendur söfnuðust saman við Klettagarða um þrjú leytið í dag. Um hálftíma síðar ók fjölmenn bílalest, um 200 bílar af öllum stærðum og gerðum, eftir Sæbraut, en stefnan var tekin á Austurvöll. Þar tók Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, á móti mótmælendunum. Honum var afhent áskorun og stórt jeppadekk, en það átti að minna þingmenn á mótmæli bílstjóranna.
„Við munum að sjálfsögðu fara yfir þær ábendingar sem hér er verið að tefla fram,“ sagði Sturla við fjölmiðla og mótmælendur.
Að sögn lögreglu hafa verið skærur víðsvegar á helstu umferðaræðum borgarinnar nú seinni part dags þegar bílstjórarnir héldu heim á leið eftir mótmælin. T.d. þurfti lögreglan að hafa afskipti af flutningabílstjórum sem óku löturhægt suður Kringlumýrarbraut og töfðu þannig fyrir umferð.
Vöruflutningabílstjórar og félagar í Austurlandsdeild ferðaklúbbsins 4x4 mótmæla einnig hækkun eldsneytisverðs og vökulögunum á Egilsstöðum í dag.
Sömu sögu var að segja norður á Akureyri þar sem Atvinnubílstjórar mótmæltu háu eldsneytisverði. Talsverðar umferðartafir urðu í bænum vegna aðgerðanna.