Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að borgarstjóri hafi í þrígang veist að Framsóknarflokknum frá því nýr borgarstjórnarmeirihluti tók við fyrir rúmum tveimur mánuðum. Óskaði hann skýringa á þessu við upphafi borgarstjórnarfundar í dag en segir að borgarstjóri hafi kosið að svara ekki.
„Fyrsta uppákoman var þegar hann sakaði borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um ósannindi í umræðum um niðurskurð til íþróttamannvirkja um einn milljarð króna. Þau ummæli borgarstjóra hafa verið hrakin og niðurskurður um einn milljarð króna til íþróttamannvirkja er staðreynd.
Önnur uppákoman varð þegar borgarfulltrúi Framsóknarflokksins spurði um aðkomu aðstoðarmanns borgarstjóra að deiliskipulaginu við Laugaveg 4-6. Fyrirspurnin var lögð fram á þeim tíma sem stuðningur almennings við borgarstjórn hafði mælst um 9% sem er met í stuðningsleysi við opinbert fyrirtæki. Svar borgarstjóra við þeirri spurningu var með þeim hætti að hann hefur sjálfur dregið orð sín til baka.
Þriðja uppákoman og ástæða þess að ég kveð mér hljóðs hér í upphafi fundar í borgarstjórn Reykjavíkur eru ummæli borgarstjóra sem hann lét falla í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins í gær," samkvæmt upplýsingum frá Óskari.
Á Ólafur að hafa sagt þar að þau umskipti hafa orðið í borginni að í fyrsta skipti í langan tíma er sá flokkur sem lengst hefur gengið í þjónustu við verktaka og auðmenn, Framsóknarflokkurinn ekki í meirihluta í Reykjavík. Sagði Ólafur að þess muni sjást stað í skipulagsmálunum og uppbyggingunni þar borgarstjórnarmeirihlutinn er að gæta hagsmuna borgarbúa en ekki einhverra tiltekinna sérhagsmunahópa eða flokksmanna, eða verktaka eða annarra sem (hafa) mikla umsýslu og fé undir höndum.
Óskar óskaði eftir því að Ólafur F. Magnússon upplýsti um við hvað hann ætti þegar hann segði að Framsóknarflokkurinn hafi gengið lengst í þjónustu sinni við verktaka og auðmenn og við hvaða auðmenn borgarstjóri ætti.