Sturta möl fyrir framan Alþingi

Vörubílstjórar segja að alþingismenn og ráðherrar hafi skellt skollaeyrum við mótmælaaðgerðum bílstjóra að undanförnu og ætla að ýta við þeim með því að sturta nokkrum bílförmum af möl fyrir framan Alþingi árdegis í dag.

Bílstjórar tepptu umferð á nokkrum helstu samgönguæðum í Reykjavík fyrir helgi og svo aftur í gærmorgun til að mótmæla vökulögum, háu eldsneytisverði og þungaskatti. Sturla Jónsson, talsmaður bílstjóra, segir að alþingismenn og ráðherrar hafi sem fyrr virt bílstjóra og reyndar allan almenning í landinu að vettugi og ýmsar hugmyndir hafi verið til umræðu til að vekja frekari athygli ráðamanna á alvarleika málsins. Þar sem fjármálaráðherra sé dýralæknir að mennt hafi komið til tals að sturta hrossataði eða hænsnaskít framan við Alþingi en þegar heyrst hafi af boðuðum mótmælum á Austurvelli klukkan 16 í dag hafi verið ákveðið að gera fólki ekki erfiðara fyrir með skít og ólykt en dreifa miklu magni af möl fyrir framan Alþingishúsið í staðinn. Mölin kæmi þá líka að gagni fyrir jeppamennina sem myndu leika sér í torfæruakstri í henni síðdegis.

Sturla segir að vörubílstjórar ætli að vera við Alþingi klukkan 10 árdegis, en ekki verði greint frá frekari aðgerðum að svo komnu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka