Þingmenn og mótmælendur, ráðherrar og öryrkjar, trúboðar og trúleysingjar, vinstri- og hægrimenn: hægt er að finna allan pakkann eins og hann leggur sig á Blog.is, eða Moggablogginu eins og flestir kalla þennan vinsælasta bloggvef landsins, sem í dag á tveggja ára afmæli.
Skráðir notendur Moggabloggsins eru í dag tæplega 14.000 talsins og í hverri viku eru um 130.000 heimsóknir á bloggvefi Blog.is. Meðalaldur skráðra notenda er rösklega 34 ár og alls höfðu verið skrifaðar á bloggvefinn 392.471 færsla seinni part dags í gær, eða um 28 færslur á hvern notanda. Við færslurnar hafa svo verið skrifaðar 1.186.465 athugasemdir!
Ein þessara bloggstjarna er Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is) sem bloggar um fjölskyldulíf sitt og uppátæki einhverfs sonar síns: „Bloggið hefur breytt heilmiklu,“ segir Jóna um nýfundna frægð. „Ég byrjaði að blogga til að reka sjálfa mig út í að skrifa, en ég hafði alltaf ætlað mér að gerast rithöfundur. Í gegnum bloggið hef ég skrifað fullt af smásögum sem ég hefði aldrei gert annars. Þökk sé blogginu hafa tímarit fengið mig til greinaskrifa og fyrir jól er ég væntanlega að fara að gefa út bók.“
Vinsælasti bloggarinn í dag er Áslaug Ósk Hinriksdóttir (aslaugosk.blog.is), sem bloggar m.a. um baráttu dóttur sinnar við krabbamein: „Það hefur hjálpað mér ótrúlega mikið að blogga, og hafa stuðningur og fallegar orðsendingar reynst ómetanleg,“ segir Áslaug. „Einnig fæ ég reglulega póst frá foreldrum langveikra barna sem eru þakklátir fyrir skrifin, eða einfaldlega frá fólki sem lesið hefur bloggið og í kjölfarið byrjað að líta lífið öðrum augum en áður.“