Varstu gabbaður í dag?

Bob Dylan mætti ekki á tónleikana í Austurstræti, hann kann …
Bob Dylan mætti ekki á tónleikana í Austurstræti, hann kann nefnilega á dagatal. AP

Fyrsta dag aprílmánaðar er hefð fyrir því að fjölmiðlar reyni að láta almenning hlaupa apríl með ósönnum fréttum. Til að geta mælt árangur gabbsins er fólk iðulega boðað á einhvern ákveðinn stað og stund  þar sem eitthvað merkilegt á að gerast. Fréttavefur Morgunblaðsins hefur gert ítarlega úttekt á helsta aprílglensi fjölmiðlanna það sem af er degi.

Sjálft Morgunblaðið var með hvorki meira né minna en þrjár ósannar fregnir á síðum sínum í dag. Á síðu tvö er sagt frá því að vörubílstjórar hafi haft í hyggju að sturta möl fyrir framan alþingi í dag og jeppamenn ætluðu að leika sér í þeirri torfæru til að mótmæla háu eldsneytisverði. Einnig voru fregnir af tveimur alþjóðlegum listamönnum. Fréttin af Bob Dylan í Austurstræti ásamt götuspilaranum JoJo var að sjálfsögðu gabb og sömuleiðis að Nick Cave og Gael Garcia Bernal tækju þátt í kvikmyndatökum í Kringlunni.

mbl.is býður upp á ókeypis kvikmyndaniðurhal en þar er verið að láta lesendur Fréttavefjar Morgunblaðsins hlaupa apríl rafrænt og höfðu ríflega20 þúsund manns gert það í kvöld og fréttin fór í fyrsta sæti yfir mest lesnu fréttir dagsins og er enn á uppleið.

mbl.is tók einnig þátt í aprílgabbi Google þar sem  fréttir af fortíðartölvupóstinum voru nokkuð orðum auknar.

Fréttablaðið stefndi auðtrúa fólki á bensínafgreiðslu á Bústaðavegi þar sem ódýrt eldsneyti átti að vera á boðstólum.

24 stundir sögðu frá því að Björn Ingi Hrafnsson tæki við ritstjórastólnum á þeim bæ en sá sem þetta ritar getur staðfest að Ólafur hefur eigi að síður mætt til vinnu í dag og Björn Ingi hefur ekki sést tilsýndar í Hádegismóum.

Femínistafélag Íslands sagðist ætla að standa fyrir mótmælum gegn hlutgervingu kvenlíkamans í Vesturbæjarlauginni í Reykjavík klukkan 17 í dag og hvatti konur til að mæta berar að ofan í sundi.

Á vefsíðu Landspítalans kom fram að byggingu nýja háskólasjúkrahússins hafi verið frestað vegna fornleifafundar í mýrinni og áttu nemendur í fornleifafræði við HÍ að sýna vegfarendum fornan grafreit í dag.

Á kjós.is var sagt frá því að mikið magn af áfengu smyglgóssi hefði flotið á land á fjörum gengt Grundartanga.

Suðurlandid.is sagði frá fyrstu skóflustungu Landeyjahafnar og var haft samband við Unni Brá Konráðsdóttur, sveitastjóra Rangárþings eystra en hún segist ekki sjá ástæðu til að bjóða Eyjamönnum til athafnarinnar með fyrstu skóflustungu Bakkahafnar þar sem henni hafði ekki verið boðið á sínum tíma er Eyjamenn byggðu sína höfn.

Víkurfréttir voru með fregn af draugaskipi sem draga átti af strandstað klukkan fjögur í dag. Í fréttinni segir: „Draugaskipið sem rak í nótt á fjörur Garðskaga er Kristbjörg VE, sem slitnaði aftan úr dráttarskipi á Reykjaneshrygg fyrir mörgum árum og týndist. Talið var að skipið hafi sokkið, enda um 20 ár síðan það hvarf sjónum manna."

Barnaland.is í samstarfi við mbl.is tilkynnti að til að auka hagræðingu yrði vefurinn framvegis á dönsku sem að sjálfsögðu eru fleipur eitt.

Rúv var í hádegisfréttum sínum með fregn frá gamalli sprengigeymslu sem fannst í Öskjuhlíð  en hún var ekki það hættuleg að almenningi var boðið var upp á skoðunarferð í fylgd Þórs Whitehead í dag. Síðan var meiningin að láta Akureyringa hlaupa apríl með því að bjóða auðtrúa fólki í fyrstu siglinguna með Grímseyjarferjunni Sæfara sem að sögn þarf að prófa með fullfermi og 100 farþegum. Þetta kom fram bæði í kvöldfréttum RÚV og Ríkissjónvarpsins.

DV var líka með Björn Inga - og stóð í frétt á baksíðu blaðsins í dag að hann myndir árita endurminningar sínar í Kringlunni í dag.

visir.is sagði frá því að Al Gore myndi gista í snekkju Saddams Hússeins á meðan dvöl hans stæði í Reykjavík, og átti snekkjan að vera opin almenningi í dag og til sýnis við hliðina á Viðeyjarferjunni.

Stöð 2 stefnir græjuóðum landanum í verslanir Vodafone til að kaupa fyrstu I phone símtækin sem berast til landsins. Var meiningin að hafa opið frameftir kvöldi í verslunum símafyrirtækisins í Skútuvogi í Reykjavík og á Glerártorgi á Akureyri.

Sunnlenska fréttablaðið kom út í gær og efst á forsíðu þess er vikið að því að Kögunarhóll muni víkja fyrir tvöföldun Suðurlandsvegar, honum hreinlega rutt í burtu og sagt frá fyrirhuguðum mótmælum sem áttu að fara fram klukkan 13 í dag 1. apríl. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka