Um 100 manna frönsk flugsveit kemur til Íslands í næsta mánuði, en hún mun stunda æfingar og hafa eftirlit með íslenska flugstjórnarsvæðinu í sex vikur. Geir H. Haarde forsætisráðherra segir að flugsveit frá Bandaríkjunum muni einnig koma til landsins síðar á þessu ári. Geir er staddur á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Búkarest í Rúmeníu.
„Ég geri ráð fyrir að koma inn á öryggismál Íslands við þau tækifæri sem gefast á fundinum. Á síðasta fundi Atlantshafsibandalagsins tók ég upp þá stöðu sem komin var eftir að Bandaríkjamenn yfirgáfu Keflavíkurflugvöll og fór fram á að bandalagið legði okkur til loftrýmiseftirlit sem þó þyrfti ekki að vera með sama hætti og í Eystrasaltslöndunum, þ.e. 24 tíma á sólarhring, sjö daga vikunnar, heldur tímabundið eftirlit sem ríkin myndu skiptast á að sinna. Þetta náði fram að ganga. Það er búið að samþykkja þetta í þeim stofnunum sem það þurfti að gera og þetta mun byrja núna í maí. Þá kemur til landsins frönsk flugsveit og með henni um 100 manns til að annast eftirlit í sex vikur á íslenska svæðinu. Frakkar hafa þegar sent hingað undirbúningshóp," sagði Geir.
Geir sagðist ætla að ræða þessi mál á fundinum í Búkarest og þakka þeim þjóðum sem tóku svona vel í málaleitan okkar. Geir sagði merkilegt að það skuli vera Frakkar sem ríða á vaðið, en þetta væri fyrsta skiptið sem franski flugherinn yrði með starfsemi og æfingar á Íslandi. Hann sagði að í kjölfar Frakka kæmi bandarísk flugsveit til landsins og síðan fleiri þjóðir.