Borgin kemur illa undan vetri

„Það er alveg hroðalegt,“ segir Guðni Hannesson, yfirverkstjóri gatnahreinsunar Reykjavíkurborgar, um ástandið á götum Reykjavíkur eftir veturinn. Ástæðuna segir hann vera að svo lítið hafi verið hægt að hreinsa á milli þess sem snjóalög tók upp sl. vetur. „Það er búið að sanda svo mikið og það var ekkert hægt að sópa í milli. Það var stöðugt snjór og frost,“ segir Guðni. Þannig hefur sandurinn safnast upp í allan vetur, en ekki er hægt að sópa á meðan frost er.

Hinn 15. mars hófst hreinsun í borginni og nú stendur hreinsun yfir á milli Laugavegar og Miklubrautar. Guðni segir að reynt verði að standa við dagsetningar en áætlunin var að ljúka hreinsun vestan Kringlumýrarbrautar fyrir 15. apríl og 1. maí austan hennar.

Undanfarna morgna hefur ekki verið hægt að sópa út af frosti, að sögn Guðna, og alltaf er betra að sópa í rigningu. „Við notum alltaf vatn þegar við erum að sópa og það gengur betur með sópana þegar það er blautt.“ Guðni segir mikið um að fólk hringi og óski eftir því að hreinsað verði hjá því strax, en biður fólk að skilja að erfiðlega hafi gengið vegna frosts.

Fjöldi manns vinnur nú við að tína rusl, bæði úr trjám og af götunum. Það segir Guðni vera hefðbundið vorverk, en götusópunin standi yfir allt sumarið, þó að mest þurfi að sópa í fyrstu yfirferð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert