Viðskiptavinir N1 hafa tekið verðlækkun á eldsneyti fagnandi í dag og víða myndast biðraðir eftir þjónustu að sögn Ingunnar Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra neytendasviðs N1. „Það er gríðarleg ánægja með lækkun á eldsneytisverði og við finnum fyrir miklum stuðningi og velvilja hjá viðskiptavinum."
N1 lækkaði verð á eldsneyti um 25 krónur í morgun og kostar lítir af 95 oktana bensíni nú 129,40 krónur en dísilolíu 138,40 krónur. Gildir það verð á öllum stöðvum, hvort heldur sem fólk nýtir sér þjónustu eða dælir sjálft til klukkan 19 í kvöld en þá mun verðið hækka á ný. Eftir lækkunina hjá N1 fylgdu önnur olíufélög í kjölfarið, öll nema Skeljungur sem ekki lækkaði verð á sínum bensínstöðvum.