Hafa áhyggjur af niðurskurði á Landspítala

Ásdís Ásgeirsdóttir

Sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar á Landspítala hafa miklar áhyggjur af niðurskurði á starfsemi spítalans sem kemur illa við bæði sjúklinga og starfsmenn, að því er fram kemur í áskorun frá þeim til heilbrigðisyfirvalda.

„Landspítalinn hefur um árabil glímt við mikinn fjárhagsvanda og hafa allir starfsmenn hans lagt sitt af mörkum til að ná fram hagræðingu og sparnaði í rekstri hans. Ástandið er nú orðið þannig að mörgum starfsmönnum þykir nóg komið. Þeir telja að sparnaðaraðgerðirnar séu farnar að vega að þjónustu spítalans við landsmenn og stöðu hans sem háskólasjúkrahúss.

Sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar á Landspítala hafa miklar áhyggjur af niðurskurði á starfsemi spítalans sem kemur illa við bæði sjúklinga og starfsmenn. Sjúkraþjálfarar og iðjuþjálfar starfa við endurhæfingu sjúklinga á öllum deildum spítalans, allt frá gjörgæsludeild til göngudeilda. Þeir eiga í þverfaglegu samstarfi við aðrar starfsstéttir spítalans svo að sjúklingar geti fengið bestu þjónustu sem völ er á hverju sinni. Með því móti er unnt að stytta legutíma á bráðadeildum og halda áfram endurhæfingu, t.d. á Grensásdeild, Landakoti eða utan spítalans. Meginmarkmið þjálfunarinnar er að auka sjálfsbjargargetu einstaklingsins, svo að hann geti lifað eins sjálfstæðu og innihaldsríku lífi og kostur er.

Erfiðlega hefur gengið að manna allar stöður sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa á Landspítalanum undanfarin ár. Þar er fyrst og fremst um að kenna lélegum launakjörum og miklu vinnuálagi.

Landspítalinn er flaggskip íslenskrar heilbrigðisþjónustu og þar er að finna mestu sérþekkingu allra heilbrigðisstétta. Það veldur því miklum áhyggjum þegar reynsla og sérþekking starfsmanna er ekki metin að verðleikum og spítalinn missir hæft starfsfólk til annarra starfa. Uppsagnir hjúkrunarfræðinga á svæfinga-, gjörgæslu- og skurðsviði vegna fyrirhugaðra breytinga á vaktafyrirkomulagi er gott dæmi um það.

Almenningur á Íslandi vill góða heilbrigðisþjónustu og hún verður ekki veitt nema með fullnægjandi mannafla. Það er því brýnt að gera átak í launamálum heilbrigðisstétta á Landspítalanum og fjölga nemum í heilbrigðisgreinum

Við skorum á heilbrigðisyfirvöld og yfirstjórn Landspítalans að bæta kjör heilbrigðisstétta á spítalanum," að því er segir í ályktun sjúkraþjálfara og iðjuþjálfara á endurhæfingarsviði Landspítala, Hringbraut, Fossvogi, Grensási og Landakoti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert