ÍAV harmar val á fyrirsögn á forsíðufrétt

ÍAV harmar val Morgunblaðsins á fyrirsögn með frétt á forsíðu blaðsins í morgun um starfsemi félagsins og vill að það komi skýrt fram að sú framsetning er alfarið á ábyrgð Morgunblaðsins, en mat stjórnenda ÍAV er hinsvegar að sjaldan eða aldrei hafi verið jafnlífvænlegt á Austurlandi, að því er segir í yfirlýsingu frá fyrirtækinu.

„Á undanförnum árum hefur ÍAV tekið þátt í veigamikilli uppbyggingu á Austurlandi.  Félagið hefur komið að nokkrum verkefnum í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar og byggingu álvers í Reyðarfirði, einnig stækkun Lagarfossvirkjunar, byggingu snjóflóðavarnargarða fyrir ofan Seyðisfjörð, byggingu frystigeymslna á Norðfirði og Hornafirði, byggingu verslunarhúsnæðis á Reyðarfirði og Egilsstöðum, byggingu sundlaugar í Eskifirði, leikskóla á Egilsstöðum auk byggingar íbúða á Egilsstöðum og Reyðarfirði. 

Í dag vinnur félagið að byggingu vélsmiðju á Reyðarfirði og byggingu íbúðarblokkar í Reyðarfirði auk þess sem verið er að leggja lokahönd á þær íbúðarbyggingar sem félagið hefur byggt í eigin reikning. ÍAV á í dag 13 íbúðum óráðstafað á Austurlandi.

Stórt verktakafélag eins og ÍAV nær ekki hagkvæmni í staðbundnum rekstri sínum nema félagið nái að tryggja sér stór verkefni á hverjum stað sem akkeri fyrir starfsemi sína.  Meðan slík verkefni eru í gangi getur reynst hagkvæmt að styðja við starfsemina með smærri tengdum verkefnum svo sem íbúðarbyggingum og ná með því bættri nýtingu á mannskap og búnaði.

Það er mat stjórnenda ÍAV á þessari stundu að þegar þeim verkefnum sem nú eru í gangi líkur muni félagið vanta verkefni af nægjanlegri stærð til þess að hagkvæmt geti talist fyrir félagið að halda úti sérstakri starfsstöð á Austurlandi. Í ljósi þess hefur félagið gripið til þess ráðs að segja upp þremur starfsmönnum sem unnið hafa á starfsstöð félagsins þar. Aðrir starfsmenn sem hafa fasta búsetu á Austurlandi utan einn hafa þegar tekið að sér ný störf á svæðinu samhliða því sem þeir taka þátt í að ljúka þeim verkefnum sem félagið vinnur nú að á Austurlandi. 

Veruleg áframhaldandi tækifæri eru í verklegum framkvæmdum á Austurlandi, margt er ógert sem var frestað meðan á stóriðjuuppbyggingu stóð auk þess sem eftir er að byggja upp margvíslega stoðstarfsemi við stóriðjuna í Reyðarfirði.  ÍAV starfar á öllu landinu og mun að sjálfsögðu sækjast áfram eftir verkefnum fyrir starfsmenn sína þar sem þau bjóðast enda séu verkefnin af þeirri stærðargráðu að nauðsynlegri rekstrarhagkvæmni verði náð.

ÍAV mun því hér eftir sem hingað til taka þátt í útboðum á vænlegum verkefnum sem bjóðast ekki síður á Austurlandi en á öðrum stöðum á landinu," að því er segir í yfirlýsingu ÍAV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert