Jarðfræði á leið Sundaganga vel þekkt

Gerð Sundaganga eiga ekki að fylgja nein stórkostleg vandræði vegna jarðlaga á fyrirhugaðri gangaleið að mati Hreins Haraldssonar, framkvæmdastjóra þróunarsviðs Vegagerðarinnar, en hann er með doktorspróf í jarðfræði. Ísleifur Jónsson, verkfræðingur og fyrrverandi stjórnandi Jarðborana ríkisins, varar við gerð Sundaganga, og raunar jarðganga undir sjó sunnanlands, í grein í Morgunblaðinu á sunnudaginn var. Hann nefnir þar hættu á jarðskjálftum og telur að lekt í ungu bergi svæðisins verði mikil.

Hreinn byggir álit sitt á rannsóknum sem búið er að gera á fyrirhugaðri gangaleið og áliti sérfræðinga sem skoðað hafa málið fyrir Vegagerðina. „Það er orðið mjög vel þekkt bergið og hugsanlegur leki á þeirri leið, bæði eftir rannsóknir síðastliðins sumars og eins er mikið til af gögnum frá borunum í Reykjavík fyrr og síðar. Þegar þetta er allt lagt saman tel ég að engin stórhætta sé á miklum leka á þessari gangaleið,“ sagði Hreinn.

Í nýlegri kostnaðaráætlun vegna Sundaganga er reiknað með því að gerð þeirra verði eitthvað dýrari á lengdareiningu en t.d. gerð Hvalfjarðarganga. Sagði Hreinn að reiknað sé með heldur meiri þéttingum á bergi við gerð Sundaganga en þurfti að beita í Hvalfirði.

Hvað varðar hættu af jarðskjálftum fyrir Sundagöng sagði Hreinn að jarðskjálftasérfræðingar væru sammála um að hætta af jarðskjálftum sé ekki meiri fyrir jarðgöng en önnur mannvirki. Ísleifur bendir á að einungis ein rannsóknarhola af 13 hafi verið boruð niður í sjávarbotninn á 1,5 km hluta gangaleiðarinnar. Hreinn sagði að auk holunnar sem boruð var frá sjó hafi verið skáboraðar rannsóknarholur frá landfyllingum undan Kleppi og Gufunesi og inn undir sjávarbotninn. Hann sagði menn telja sig hafa mjög góða mynd af jarðlögum á þessu svæði. Þau séu raunar óvíða jafn vel þekkt og á Reykjavíkursvæðinu.

Auk rannsóknarborana nú hafi menn öðlast mikla þekkingu á jarðlögunum við kaldavatns- og heitavatnsboranir í gegnum árin. Hreinn benti á að við undirbúning Hvalfjarðarganga hafi engin rannsóknarhola verið boruð frá sjó. Hann sagði að Árni Hjartarson jarðfræðingur, sem stýrði rannsóknarborunum vegna Sundaganga, þekki jarðfræði Reykjavíkur manna best. Því hafi hann verið fenginn til verksins.

Hvað varðar áhyggjur Ísleifs vegna loftræstingar Sundaganga sagði Hreinn að ekki væri búið að fullhanna verkefnið, enda ekki verið ákveðið hvort í það verði ráðist. Hann taldi þó líklegast að slík göng yrðu loftræst út um gangamunnana. Ef mengun úr göngunum reynist vera umfram leyfileg mörk þurfi að hreinsa loftið úr þeim með hreinsibúnaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert