Mestu tafir hingað til

Í morgun urðu gríðarlegar tafir á umferð um Hafnarfjarðarveg
Í morgun urðu gríðarlegar tafir á umferð um Hafnarfjarðarveg mbl.is/Júlíus

Atvinnubílstjórar hafa lokað fyrir alla umferð um Hafnarfjarðarveg, rétt við lækinn í Kópavogi, í báðar áttir. Verður lokað fyrir alla umferð í báðar áttir til klukkan níu hið minnsta, að sögn Ágústs Fylkissonar, eins talsmanns bílstjóranna. 50-60 bílstjórar taka þátt í aðgerðunum. Eru þetta mestu tafir hingað til frá því aðgerðir atvinnubílstjóra hófust í síðustu viku.

Ágúst segir að þrátt fyrir lokun í báðar áttir hafi bílstjórarnir hleypt neyðarumferð í gegn enda beinist ekki aðgerðir bílstjóra gegn þeim. Meðal þeirra sem hafa fengið að fara í gegn eru tveir læknabílar sem þurftu að komast leiðar sinnar, neyðarbíl slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðisins og ættingjum manns sem hafði fengið hjartaáfall og var fluttur á sjúkrahús.

Að sögn sjónarvotta eru um 1.000 bifreiðar fastar á Hafnarfjarðarveginum og biðraðirnar margir kílómetrar að lengd.

Ágúst segir að aðgerðum bílstjóra sé hvergi nærri lokið og að götum verði áfram lokað án nokkurs fyrirvara. Hann segist vera hissa á því að ekkert hafi heyrst í þingmönnum stjórnarandstöðunnar. „Við erum mjög hissa á því að stjórnarandstaðan skuli ekki koma fram og standa með okkur. Með því gæti hún náð sér í smá rjóma fyrir næstu kosningar og ekki veitti henni af því," sagði Ágúst í samtali við blaðamann Fréttavefjar Morgunblaðsins.


Öll umferð var stöðvuð um Hafnarfjarðarveg.
Öll umferð var stöðvuð um Hafnarfjarðarveg. mbl.is/Júlíus
Bílaraðirnar voru gríðarlega langar á Hafnarfjarðarveginum í morgun.
Bílaraðirnar voru gríðarlega langar á Hafnarfjarðarveginum í morgun. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka