Mikill vöxtur í útgjöldum vegna heilbrigðismála

mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Heildarútgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið verulega síðasta aldarfjórðung eða úr ríflega 6,4% af landsframleiðslu í upphafi níunda áratugarins í um 9,2% af landsframleiðslu á síðasta ári. Það samsvarar 117,3 milljörðum króna á verðlagi þess árs. Eftir þessum mælikvarða reyndust útgjöldin hæst árið 2003 eða 10,4% af landsframleiðslu. Þetta kemur fram í nýjum hagtíðindum Hagstofu Íslands.

Hlutur heimilla eykst um verulega

Af heildarútgjöldum til heilbrigðismála greiðir hið opinbera 96,8 milljarða króna og einkaaðilar 20,5 milljarða. Á rúmlega aldarfjórðungi hafa útgjöld hins opinbera til þessa málaflokks aukist úr 5,5% af landsframleiðslu í 7,6%. Á sama tíma hafa útgjöld heimilanna tvöfaldast, úr 0,8% af landsframleiðslu í 1,6%. Hlutur heimilanna hefur aukist verulega frá 1980 eða úr 12,8% af heildarútgjöldum í 17,5% árið 2007. Hámarki náði hlutur þeirra árið 1998 er hann nam 19,6% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála.

„Til þess að meta vöxt heilbrigðisútgjalda að raungildi frá 1980 er nærtækast að staðvirða heilbrigðisútgjöld hins opinbera með verðvísitölu samneyslu og útgjöld einkaaðila með verðvísitölu heilbrigðisútgjalda einkaneyslunnar.

Í byrjun níunda áratugarins voru heilbrigðisútgjöld um 41 milljarður króna á verðlagi 2007 en ríflega 117 milljarðar árið 2007. Heilbrigðisþjónustan hefur því nærri þrefaldast að magni (um 190% vöxtur) á þessu tímabili. Heilbrigðisútgjöld á mann voru hins vegar um 377 þúsund krónur árið 2007 en 179 þúsund krónur í byrjun níunda áratugarins á verðlagi 2007 og hafa því ríflega tvöfaldast (110% vöxtur) síðasta aldarfjórðung. Síðustu sex árin hafa þau þó nánast staðið í stað og verið um 375 þúsund krónur á mann á sama verðlagi," samkvæmt frétt á vef Hagstofu Íslands.

Heildarútgjöld til heilbrigðismála í ríkjum OECD voru að meðaltali 9% af vergri landsframleiðslu ríkjanna árið 2005, en mikill munur er á því hlutfalli milli einstakra ríkja.

Íslendingar í 10-11 sæti á lista OECD-ríkjanna

Í Bandaríkjunum var hlutfallið til dæmis 15,3% árið 2005 en 6% í Suður-Kóreu. Hér á landi voru heildarútgjöld til heilbrigðismála 9,5% af vergri landsframleiðslu árið 2005, 10,4% árið 2004 og 9,2% árið 2007. Norðmenn, Svíar og Danir vörðu hins vegar 9,1% af vergri landsframleiðslu til heilbrigðismála árið 2005, en Frakkar aftur á móti 11,1% og Þjóðverjar 10,7%. Á þennan mælikvarða voru Íslendingar í 10.–11. sæti OECD-ríkjanna.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert