Biðraðir hafa myndast á bensínstöðvum N1 í morgun en fyrirtækið veitir 25 króna afslátt á öllu eldsneyti í dag. Að sögn Ingunnar Sveinsdóttur, framkvæmdastjóra neytendasviðs hjá N1, er verðið nú hið sama og það var áður en hækkanaferlið hófst á heimsmarkaðsverði á olíu og gengislækkun Bandaríkjadals.
Að sögn Ingunnar kostar lítir af 95 oktana bensíni í dag 129,40 krónur á öllum þjónustustöðvum N1 og Egó um allt land og lítir af díselolíu kostar 138,40 krónur. Gildir tilboðið til klukkan 19 í dag eða á meðan birgðir endast.
Á einu ári hefur heimsmarkaðsverð á bensíni hækkað um tæplega 40% og á díselolíu um rúmlega 60%. Á sama tíma hefur gengi Bandaríkjadals hækkað um 15%. Þetta til samans hefur leitt til þess að eldsneytisverð er nú það hæsta sem sést hefur á Íslandi, að sögn Ingunnar.
Segir hún að allt starfsfólk á skrifstofum N1 hlaupi undir bagga á bensínstöðvum félagsins enda öllum viðskiptavinum boðið upp á að láta dæla á bílinn sinn og kaffibolla. Gildir sama verð hvort heldur sem menn dæla á sjálfir eða fá fulla þjónustu.
„Það er fyrirtækinu N1 ekki til hagsbóta, eða til að auðvelda sölu- og markaðsstarf þess, að innkaup frá erlendum birgjum í þeim vöruflokki sem mestu máli skiptir í rekstri félagsins, hækki nær stöðugt og að ójafnvægi sé á gengi íslensku krónunnar.N1 deilir því áhyggjum almennings, atvinnubílstjóra og atvinnulífs á háu eldsneytisverði og hárri gengisvísitölu íslensku krónunnar, að því er segir í tilkynningu frá N1..