Rannsókn lögreglu hefur ekki leitt til skýrrar niðurstöðu um orsök eldsvoðans Austurstræti 22 og Lækjargötu 2 í apríl árið 2007 en ýmislegt þykir þó benda til þess að eldsupptök hafi verið í þakinu yfir Fröken Reykjavík eða milli þilja í Austurstræti 22. Þetta kemur fram í skýrslu Brunamálastofnunar um eldsvoðann sem birt var í dag.
Fram kemur í skýrslunni að það hafi einkum hamlað rannsókn á eldsupptökum hversu stór hluti bygginganna hafi verið fjarlægður við slökkvistarfið.
Sterkar vísbendingar eru hins vegar um að eldurinn hafi komið upp innan þilja, enda sáu fyrstu slökkviliðsmenn á staðnum mikinn reyk nokkuð víða í efri hlutum bygginganna en varla nokkurn eld, ef frá er talinn logi í ljósastæði í millilofti, í Fröken Reykjavík.
Svo virðist einnig sem eldur reykur hafi átt nokkuð greiða leið bæði inn í Austurstræti 22 vegna þess að búið var að fjarlægja þar eldvarnarvegg og inn í Lækjargötu 2 eftir fráveitulögnum.
Fram kemur í skýrslunni að eldurinn hafi í byrjun fyrst og fremst breiðst út í holrýmum í þaki og milli þils og veggja og að þótt innveggir húsanna hafi verið klæddir með viðurkenndri klæðningu hafi það haft lítið að segja þar sem eldurinn hafi verið inni í vegg og þakrými þar sem aðgangur eldsins að óvörðu timbri og öðru brennanlegu efni hafi verið nægur. Þá hafi nokkuð verið um tjörupappa og steinull, sem notuð hafi verið í einangrun, hafi ekki verið rétt frá gengin.
Einnig hafi gengið erfiðlega að rjúfa þak Austurstrætis 22 til reyklosunar m.a. vegna þess að klæðning þaksins hafi verið í mörgum lögum. Þá hafi þakrýmið verið lokað af þannig að engin opin leið hafi verið af annarri hæð upp í súð.