Óljóst hvenær eldvarnarveggur var fjarlægður

Rúmlega 200 ára gamalt hús, Austurstræti 22, gjöreyðilagðist í brunanum …
Rúmlega 200 ára gamalt hús, Austurstræti 22, gjöreyðilagðist í brunanum í miðborg Reykjavíkur Júlíus Sigurjónsson

Brunamálstofnun hefur birt skýrslu sína um stórbrunann við Lækjartorg í Reykjavík í apríl árið 2007. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru þær að hönnun húsanna, framkvæmd breytinga áþeim í gegnum tíðina og eftirlit með þeim hafi ekki verið í samræmi við þær kröfur um brunavarnir sem í gildi voru á hverjum tíma. 

Fram kemur í skýrslunni að efði öll brunahólfun í húsunum verið með þeim hætti sem byggingarreglugerð gerir ráð fyrir og sé gengið út frá því að eldsupptökin hafi verið í Fröken Reykjavík megi telja víst að óverulegt tjón hefði orðið í brunanum nema í því brunahólfi sem eldurinn kom upp í þ.e. í Fröken Reykjavík

Í skýrslunni segir að ljóst sé að einhvern tíma í byggingarsögu húsanna við Austurstræti 22 og Lækjargata 2 hafi eigandi eða aðilar á hans vegum rifið niður um 10 metra langan eldvarnavegg sem stóð á lóðamörkum húsanna þrátt fyrir að þeim aðilum hefði átt að vera ljóst að með því væru þeir að brjóta byggingarreglugerð gróflega og auka mjög sambrunahættu húsanna.

Þessar aðgerðir hafi síðan verið huldar þannig að mjög erfitt hafi verið að sjá að eldvarnaveggurinn var farinn og í stað hans kominn veggur án skilgreindrar brunamótstöðu. Þar sem ekki var um eldvarnarvegg að ræða hafi eldur átt greiða leið á milli bygginganna þann 18. apríl árið 2007 og það hafi valdið því að tjón varð jafn mikið og raun ber vitni. 

Í sýrslunni kemur einnig fram að verulegir annmarkar hafi verið á frágangi teikninga af húsunum hvað varði hólfun á milli húsanna og að ekki virðast hafa verið gerðir séruppdrættir af frágangi brunahólfandi veggja og milligólfa í mörgum byggingarleyfisumsóknum fyrir Austurstræti 22. 

Breytingar á húsinu hafi því verið gerðar án teikninga eða annarra samþykktra fyrirmæla. Einnig kemur fram á gögnunum um breytingar á húsunum að athugasemdir sem slökkviliðið gerði við yfirferð á teikningum hafi verið strikaðar út af athugasemdablaði án þess að viðkomandi merki alltaf við það með upphafsstöfum sínum. Þetta geri það að verkum að erfitt sé að rekja yfirferð teikninganna.

Þá segir að í lögum um brunavarnir sé lögð mikil áhersla á óskoraða ábyrgð eiganda mannvirkis á brunavörnum þess. Hlutverk byggingafulltrúa sé hins vegar að tryggja að ákvæðum byggingarreglugerðar varðandi öryggi og heilsu sé fullnægt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert