Miklar efasemdir virðast vera innan Samfylkingarinnar um boðaða uppstokkun lögregluembættisins á Suðurnesjum en þrír þingmenn flokksins, Árni Páll Árnason, Helgi Hjörvar og Lúðvík Bergvinsson, stigu í pontu Alþingis í gær og töldu ekki hafa komið fram nægjanleg rök fyrir áformunum. Sögðu þeir starfsemi embættisins hafa verið árangursríka og að ekki væri ástæða til að „gera við það sem ekki er bilað“.
Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, kom áformum dómsmálaráðherra í þessum efnum til varnar og sagði tollgæslu og löggæslu almennt vera aðskildar í landinu. Þetta væri liður í að afnema sérstakar reglur sem giltu um Keflavíkurflugvöll. Það útiloki hins vegar ekki áframhaldandi gott og náið samstarf.
Lúðvík Bergvinsson sagði hins vegar að meginreglan væri að sami maðurinn væri lögreglustjóri og tollstjóri. „Sú breyting sem hér er verið að boða er undantekning frá meginreglunni á landinu,“ sagði Lúðvík.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknar, var ekki hrifin af áformunum og vildi fá skýr svör um hvort Samfylkingin styddi þau eða ekki. „Það er afar hættulegt að gefa lögreglumönnum og tollvörðum sem hafa unnið afar gott starf falskar vonir,“ sagði Siv og Grétar Mar Jónsson, þingmaður Frjálslyndra, var ósáttur við framkomu dómsmálaráðherra. „Við höfum orðið vitni að því í þessu máli að við fáum tilkynningu frá dómsmálaráðherra um það að hann ætli að breyta lögum. Hann kemur fram við Alþingi eins og hann ráði því einn og geti stjórnað því einn,“ sagði Grétar.