Sóttu um leyfi til Vísindasiðanefndar

Vísindasiðanefnd afgreiddi í febrúar 2005 umsókn um rannsókn á viðhorfum þátttakenda í rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar, sem Stefán Hjörleifsson læknir og heimspekingur vann. Í Morgunblaðinu á sunnudag var rætt við Stefán um rannsókn hans um umfjöllun íslenskra fjölmiðla um erfðavísindi. Stefán rannsakaði allt efni sem tengdist Íslenskri erfðagreiningu frá þessum árum, en auk þess hefur hann rannsakað viðhorf starfsfólks og þátttakenda í rannsóknum hjá ÍE.

Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að Stefán hefði framið lögbrot með rannsókn sinni, enda hefði hann hvorki haft leyfi Vísindasiðanefndar né Persónuverndar áður en hann gerði rannsóknina. Þá hefði ekki legið fyrir upplýst samþykki.

Að sögn Eiríks Baldurssonar, framkvæmdastjóra Vísindasiðanefndar, var í þeirri rannsókn, sem sneri að viðhorfum þátttakenda í rannsóknum ÍE, um að ræða námsrannsókn Stefáns sem Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, var skráður ábyrgur fyrir.

Vísindasiðanefnd starfar samkvæmt lögum um réttindi sjúklinga og segir Eiríkur að hún fjalli eingöngu um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Starfsgrundvöllur Vísindasiðanefndar sé fyrst og fremst tengdur réttindum sjúklinga. Sjúklingar eigi að geta treyst því að fram við þá sé komið með eðlilegum hætti, að ekki séu stundaðar á þeim rannsóknir sem geti valdið þeim skaða eða íþyngi þeim og séu jafnvel óþarfar fyrir verkefnið sem verið er að vinna að. Jafnframt þurfi tryggingamál að vera í lagi.

Sú rannsókn sem Stefán Hjörleifsson vann og laut að hópviðtölum við starfsfólk ÍE, en rannsóknin var unnin nokkrum árum fyrr, falli ekki undir verksvið Vísindasiðanefndar og hafi ekki komið til umfjöllunar hennar. „Sú rannsókn hlýtur að hafa verið gerð með samþykki ÍE og kom ekki hingað inn á borð.“

Í þeirri rannsókn sem sótt var um leyfi vegna árið 2005 hafi verið um að ræða viðtöl við sjö manns, 18 ára og eldri, sem þátt tóku í rannsóknum á vegum ÍE. Í rannsókninni var verið að kanna viðhorf þátttakenda og hafi verið sótt um leyfi Vísindasiðanefndar fyrir rannsókninni.

Í umsókninni hafi komið fram að þar ætti að kanna viðbrögð við nýlegum hugmyndum um arfgenga áhættuþætti algengra sjúkdóma. Umsækjandi hafi lagt mikla áherslu á að leita ekki eftir persónugreinanlegum upplýsingum um þátttakendurna sjö. Hún hafi fjallað um viðhorf en ekki um persónulega hagi fólks. „Hins vegar má það vel vera að einhverjir séu það glöggir að þeir geti borið kennsl á einstaklinga, það er almenn hætta sem tekin er með þátttöku í vísindarannsóknum af þessu tagi.“

Ramminn veikur

Eiríkur segist taka undir það með Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, að ramminn utan um vísindasiðfræði á Íslandi sé mjög veikur og nái í raun bara til rannsókna á heilbrigðissviði. „Hann snýst fyrst og fremst um að tryggja réttindi þátttakenda,“ segir hann og bendir t.d. á rannsóknir sem snúist um prófun ákveðinna lyfja í tiltekinn tíma. „Hins vegar eru stundaðar fjölþættar rannsóknir á öðrum sviðum, til dæmis í félagsvísindum, þar sem vísindasiðferðileg álitamál kvikna ótt og títt,“ segir Eiríkur. Utan um þetta sé enginn rammi, hvorki í lögum né reglugerðum. „Menn styðjast við það besta sem þeir eiga, sem er eigið brjóstvit og vinnureglur vísindasamfélagsins.“

„Það er afmarkað í lögum og reglum hvar þarf leyfi og það eru ákveðin tilvik sem eru mjög skýrt afmörkuð,“ segir Þórður Sveinsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd. Persónuvernd hefur það hlutverk að leysa úr ágreiningi sem upp kann að koma í málum sem snúa að meðferð persónuupplýsinga.

Aðspurður segist Þórður ekki kannast við að erindi hafi borist vegna rannsóknarinnar á viðhorfum starfsfólks ÍE. Segir Þórður að sækja þurfi um leyfi til Persónuverndar þegar rannsóknir varði til dæmis aðgang að sjúkraskrám vegna vísindarannsókna, sem og vinnslu með erfðaupplýsingar. Einnig í tilvikum sem varða söfnun upplýsinga um áfengisneyslu eða félagsleg vandamál, án þess að samþykki liggi fyrir. Hið sama gildi um samkeyrslu skráa með viðkvæmum persónuupplýsingum án samþykkis.

Hann segir jafnframt að meginreglan sé sú að fari fram rafræn vinnsla persónuupplýsinga þurfi að tilkynna slíkt til Persónuverndar, þótt um kunni að vera að ræða rannsóknir sem ekki hafi þurft að sækja um leyfi vegna. Sé um það að ræða að svör úr viðtölum séu geymd í rafrænum gagnabanka, annaðhvort auðkennd með nöfnum eða þannig að hægt sé að tengja þau við nöfn eða kennitölur, megi ætla að viðkomandi upplýsingar falli undir persónuverndarlögin. Í þeim sé m.a. mælt fyrir um fræðslu til hinna skráðu. Greina verði þeim frá því að upplýsingar um þá séu varðveittar á persónugreinanlegu formi.

Stefán Hjörleifsson gat ekki veitt viðtal vegna málsins í gær.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka