Sóttu um leyfi til Vísindasiðanefndar

Vís­indasiðanefnd af­greiddi í fe­brú­ar 2005 um­sókn um rann­sókn á viðhorf­um þátt­tak­enda í rann­sókn­um Íslenskr­ar erfðagrein­ing­ar, sem Stefán Hjör­leifs­son lækn­ir og heim­spek­ing­ur vann. Í Morg­un­blaðinu á sunnu­dag var rætt við Stefán um rann­sókn hans um um­fjöll­un ís­lenskra fjöl­miðla um erfðavís­indi. Stefán rann­sakaði allt efni sem tengd­ist Íslenskri erfðagrein­ingu frá þess­um árum, en auk þess hef­ur hann rann­sakað viðhorf starfs­fólks og þátt­tak­enda í rann­sókn­um hjá ÍE.

Kári Stef­áns­son, for­stjóri ÍE, sagði í sam­tali við Morg­un­blaðið í gær að Stefán hefði framið lög­brot með rann­sókn sinni, enda hefði hann hvorki haft leyfi Vís­indasiðanefnd­ar né Per­sónu­vernd­ar áður en hann gerði rann­sókn­ina. Þá hefði ekki legið fyr­ir upp­lýst samþykki.

Að sögn Ei­ríks Bald­urs­son­ar, fram­kvæmda­stjóra Vís­indasiðanefnd­ar, var í þeirri rann­sókn, sem sneri að viðhorf­um þátt­tak­enda í rann­sókn­um ÍE, um að ræða náms­rann­sókn Stef­áns sem Vil­hjálm­ur Árna­son, pró­fess­or í heim­speki við Há­skóla Íslands, var skráður ábyrg­ur fyr­ir.

Vís­indasiðanefnd starfar sam­kvæmt lög­um um rétt­indi sjúk­linga og seg­ir Ei­rík­ur að hún fjalli ein­göngu um vís­inda­rann­sókn­ir á heil­brigðis­sviði. Starfs­grund­völl­ur Vís­indasiðanefnd­ar sé fyrst og fremst tengd­ur rétt­ind­um sjúk­linga. Sjúk­ling­ar eigi að geta treyst því að fram við þá sé komið með eðli­leg­um hætti, að ekki séu stundaðar á þeim rann­sókn­ir sem geti valdið þeim skaða eða íþyngi þeim og séu jafn­vel óþarfar fyr­ir verk­efnið sem verið er að vinna að. Jafn­framt þurfi trygg­inga­mál að vera í lagi.

Sú rann­sókn sem Stefán Hjör­leifs­son vann og laut að hópviðtöl­um við starfs­fólk ÍE, en rann­sókn­in var unn­in nokkr­um árum fyrr, falli ekki und­ir verksvið Vís­indasiðanefnd­ar og hafi ekki komið til um­fjöll­un­ar henn­ar. „Sú rann­sókn hlýt­ur að hafa verið gerð með samþykki ÍE og kom ekki hingað inn á borð.“

Í þeirri rann­sókn sem sótt var um leyfi vegna árið 2005 hafi verið um að ræða viðtöl við sjö manns, 18 ára og eldri, sem þátt tóku í rann­sókn­um á veg­um ÍE. Í rann­sókn­inni var verið að kanna viðhorf þátt­tak­enda og hafi verið sótt um leyfi Vís­indasiðanefnd­ar fyr­ir rann­sókn­inni.

Í um­sókn­inni hafi komið fram að þar ætti að kanna viðbrögð við ný­leg­um hug­mynd­um um arf­genga áhættuþætti al­gengra sjúk­dóma. Um­sækj­andi hafi lagt mikla áherslu á að leita ekki eft­ir per­sónu­grein­an­leg­um upp­lýs­ing­um um þátt­tak­end­urna sjö. Hún hafi fjallað um viðhorf en ekki um per­sónu­lega hagi fólks. „Hins veg­ar má það vel vera að ein­hverj­ir séu það glögg­ir að þeir geti borið kennsl á ein­stak­linga, það er al­menn hætta sem tek­in er með þátt­töku í vís­inda­rann­sókn­um af þessu tagi.“

Ramm­inn veik­ur

„Það er af­markað í lög­um og regl­um hvar þarf leyfi og það eru ákveðin til­vik sem eru mjög skýrt af­mörkuð,“ seg­ir Þórður Sveins­son, lög­fræðing­ur hjá Per­sónu­vernd. Per­sónu­vernd hef­ur það hlut­verk að leysa úr ágrein­ingi sem upp kann að koma í mál­um sem snúa að meðferð per­sónu­upp­lýs­inga.

Aðspurður seg­ist Þórður ekki kann­ast við að er­indi hafi borist vegna rann­sókn­ar­inn­ar á viðhorf­um starfs­fólks ÍE. Seg­ir Þórður að sækja þurfi um leyfi til Per­sónu­vernd­ar þegar rann­sókn­ir varði til dæm­is aðgang að sjúkra­skrám vegna vís­inda­rann­sókna, sem og vinnslu með erfðaupp­lýs­ing­ar. Einnig í til­vik­um sem varða söfn­un upp­lýs­inga um áfeng­isneyslu eða fé­lags­leg vanda­mál, án þess að samþykki liggi fyr­ir. Hið sama gildi um sam­keyrslu skráa með viðkvæm­um per­sónu­upp­lýs­ing­um án samþykk­is.

Hann seg­ir jafn­framt að meg­in­regl­an sé sú að fari fram ra­f­ræn vinnsla per­sónu­upp­lýs­inga þurfi að til­kynna slíkt til Per­sónu­vernd­ar, þótt um kunni að vera að ræða rann­sókn­ir sem ekki hafi þurft að sækja um leyfi vegna. Sé um það að ræða að svör úr viðtöl­um séu geymd í ra­f­ræn­um gagna­banka, annaðhvort auðkennd með nöfn­um eða þannig að hægt sé að tengja þau við nöfn eða kenni­töl­ur, megi ætla að viðkom­andi upp­lýs­ing­ar falli und­ir per­sónu­vernd­ar­lög­in. Í þeim sé m.a. mælt fyr­ir um fræðslu til hinna skráðu. Greina verði þeim frá því að upp­lýs­ing­ar um þá séu varðveitt­ar á per­sónu­grein­an­legu formi.

Stefán Hjör­leifs­son gat ekki veitt viðtal vegna máls­ins í gær.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka