Viðhorf til Bandaríkjanna jákvæðara

.
. AP

Viðhorf til Bandaríkjanna hefur breyst töluvert í heiminum að undanförnu, samkvæmt nýrri könnun BBC. Samkvæmt könnuninni telja nú 35% aðspurðara Bandaríkin hafa jákvæð áhrif á alþjóðavettvangi en í samsvarandi könnun sem gerð var á síðasta ári sögðust 31% líta svo á. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

47% aðspurðra segjast hins vegar telja Bandaríkin hafa neikvæð áhrif á alþjóðavettvangi en fyrir ári sögðust 52% líta svo á. 17.000 manns tóku þátt í könnuninni sem gerð var í 34 löndum. Þótt viðhorf til Bandaríkjanna sé almennt jákvæðara nú en fyrir einu ári á það ekki við um viðhorf fólks í Kanada, Líbanon og Egyptalandi. 

„Ég tel að almenningsálitið taki mið af því sem við erum að gera, bæði í samvinnu við yfirvöld í Evrópu og aðra virta aðila,” segir Kurt Volker, háttsettur embættismaður innan bandaríska utanríkisráðuneytisins. „Það vilja allir vera elskaðir en við eru stórveldi og höfum sem slíkt mikla ábyrgð. Efnahagskerfi okkar er umfangsmikið og stjórnmálaleg og hernaðarleg áhrif okkar hafa áhrif víða þannig að það er eðlilegt að umheimurinn veiti Bandaríkjunum meiri athygli en nokkru öðru landi í heiminum.” 

Af öðrum löndum sem spurt var um eru viðhorf til Ísraels og Íran neikvæðust en 54% þátttakenda telja áhrif Írana neikvæð. Þeim sem telja Ísraela hafa neikvæð áhrif í heiminum hefur hins vegar fækkað úr  57% í 52%.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert