Átelur vinnubrögð Hannesar

Hannes Hólmsteinn Gissurarson
Hannes Hólmsteinn Gissurarson mbl.is/Golli

Rektor Háskóla Íslands, Kristín Ingólfsdóttir, átelur vinnubrögð Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors í stjórnmálafræði í bréfi sem hún hefur sent honum og gerir þá kröfu að þau verði ekki endurtekin. Segir rektor að vinnubrögð hans hafi rýrt traust skólans. Bréfið er sent í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 13. mars sl. Samkvæmt dómnum er dr. Hannesi gert að greiða Auði Sveinsdóttur, ekkju Halldórs Laxness fébætur og málskostnað fyrir að hafa í fjölmörgum tilvikum brotið gegn höfundarétti eiginmanns hennar.

Í bréfi rektors kemur fram að rektor telji að staðfesting Hæstaréttar á því að dr. Hannes hafi við ritun ævisögunnar brotið gegn höfundarétti Halldórs Kiljans Laxness sé áfall fyrir Háskóla Íslands. Dómurinn sé staðfesting þess að dr. Hannes hafi sýnt af sér óvandvirkni í starfi sem teljist ósæmileg og ósamrýmanleg þeim kröfum sem Háskóli Íslands geri til akademískra starfsmanna sinna.

„Að fengnu áliti fjölmargra lögfræðinga, bæði utan og innan Háskóla Íslands, telur rektor brotið efnislega verðskulda áminningu til starfsmanns. Í ljósi mats á stjórnsýslulegri meðferð málsins og þess stranga lagaramma sem skólanum er gert að fylgja, ásamt því að fjögur ár eru liðin frá því að brotið átti sér stað, telur rektor hins vegar að virða verði þessa þætti starfsmanninum í hag. Háskólinn hafi ekki lagalegt svigrúm til að veita áminningu með tilsvarandi réttaráhrifum. Niðurstaða málsins er því að í bréfinu til dr. Hannesar átelur rektor vinnubrögð hans og gerir þá kröfu að þau verði ekki endurtekin."

Með bréfinu er lokið meðferð rektors á máli því sem upphaflega hófst með kæru Auðar Sveinsdóttur.

„Rektor Háskóla Íslands bendir á að skólinn og starfsmenn hans hafi notið óviðjafnanlegs trausts í störfum sínum og slíkt traust sé grundvöllur starfsemi skólans og lykilatriði í þeirri sókn sem skólinn hefur hafið.

Úttektir alþjóðlegra og innlendra stofnana á starfsemi háskólans hafi leitt í ljós að starfsmenn hans hafi skilað mikilli og góðri rannsóknarvinnu á fjölbreyttu sviði vísinda undanfarin ár. Málið sem hér um ræðir er einstakt, þar sem vinnubrögð starfsmanns hafa rýrt traust skólans. Rektor hefur sett af stað vinnu innan skólans um setningu starfsreglna þar sem meðal annars verður tekið á þeim álitaefnum sem hafa komið upp í tengslum við mál dr. Hannesar til að fyrirbyggja að mál af þessu tagi komi upp aftur.
Háskóli Íslands," samkvæmt tilkynningu frá Háskóla Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka