Átta mánuðir fyrir ítrekaðar líkamsárásir gagnvart fyrrverandi eiginkonu

Héraðsdómur Reykjavíkur
Héraðsdómur Reykjavíkur mbl.is/Þorkell

Karlmaður var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í átta mánaða fangelsi, þar af fimm mánuði skilorðbundið í þrjú ár, fyrir fjórar líkamsárásir gagnvart fyrrverandi eiginkonu sinni og húsbrot. Þá var hann dæmdur til að greiða konunni 900 þúsund krónur í miskabætur.

Maðurinn var ákærður fyrir að hafa að kvöldi mánudagsins 24. janúar 2005 ráðist á konuna og margsinnis slegið hana hnefahöggum í andlit, bak, axlir, hnakka og maga, rifið í hár hennar og sparkað í fætur hennar, allt með þeim afleiðingum að hún hlaut bólgu um kinnbein, höku og niður á neðri kjálka beggja vegna, mar og roða utanvert á hægri augabrún, eymsli í hársverði og yfirborðsáverka og óþægindi í kvið.

 Að hafa að kvöldi miðvikudagsins 27. apríl 2005, ráðist á konuna í svefnherbergi íbúðarinnar og dregið hana á hárinu úr rúmi sem hún sat í og ítrekað slegið hana með krepptum hnefa þar sem hún lá í gólfinu, með þeim afleiðingum að hún hlaut eymsli í baki, hálsi og í hársverði og mar yfir vinstri rasskinn.

Að hafa laust eftir miðnætti mánudagsins 20. febrúar 2006 ruðst í heimildarleysi inn á heimili konunnar og gripið í hár hennar og haldið henni fastri á meðan hann sló hana hnefahöggum í andlit og í bak, og svo sparkað í fætur hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og rispur á enni, þreifieymsli yfir á höfði og hálsvöðvum,  marbletti á hægri öxl og upphandlegg, mar á brjóstkassa og þreifieymsli undir rifjum.

Að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 23. mars 2006 ruðst í heimildarleysi inn á heimili konunnar og í svefnherbergi íbúðarinnar ráðist á hana með hnefahöggum í öxl og andlit, dregið hana á hárinu og sparkað í hana, og svo gripið um hönd hennar og snúið upp á hana, allt með þeim afleiðingum að hún var margrispuð í andliti, bólgin yfir vinstra kinnbeini og með eymsli á höfði, hún hlaut marbletti og bólgur á brjóstkassa vinstra megin og marblett á vinstri upphandlegg.

Maðurinn neitaði sök í öllum tilvikum en dómari, Pétri Guðgeirsson, segir í niðurstöðu dómsins að frásögn hans hafi verið ótrúverðug og mótsagnakennd á meðan framburður konunnar var aftur á móti trúverðugur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert