Gagnrýna afskiptaleysi stjórnvalda

Verkalýðsfélag Húsavíkur og nágrennis gagnrýnir harðlega afskiptaleysi stjórnvalda vegna þeirrar stöðu sem komin er upp í íslensku efnahagslífi. Þetta kemur fram í ályktun sem félagið hefur sent frá sér.

„ Á meðan þjóðarskútan  siglir stjórnlaust hlaðast auknar álögur á herðar launafólks. Ljóst er að verkafólk hefur ekki borð fyrir báru til að mæta þeim hækkunum sem dunið hafa á þeim undanfarið.

Sem dæmi má nefna að umtalsverðar verðhækkanir hafa orðið á matvöru á síðustu 10 mánuðum. Samkvæmt upplýsingum frá verðlagseftirliti ASÍ hefur verð á algengum mat- og drykkjarvörum hækkað um 10-30% á undanförnum vikum. Því miður virðast sumir verslunareigendur nýta sér ástandið til meiri hækkana en eðlilegt getur talist sé tekið mið af gengisbreytingum. Þá hafa afborganir vegna lána hækkað verulega svo ekki sé talað um verð á bensíni og olíum.

Verkalýðsfélag Húsavíkur og nágrennis  styður heilshugar aðgerðir vörubílstjóra og annarra bílstjóra sem mótmælt hafa alltof háu bensín- og olíuverði. Það er í hendi stjórnvalda að lækka álögur ekki síst meðan núverandi ástand varir í efnahagsmálum.

Þá má benda á að þær launahækkanir sem aðilar vinnumarkaðarins sömdu um í febrúar eru farnar og gott betur. Kaupmáttur launa hefur rýrnað umtalsvert í því verðbólgubáli sem logar glatt þessa dagana.

Stjórnvöld verða að koma út úr skápnum og horfa á raunveruleikann eins og hann blasir við þegnum landsins sem tryggðu þeim seturétt á Alþingi. Annað verður ekki liðið," að því er segir í ályktun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka