Hávær mótmæli við Arnarhvol

„Ég ætla bara að vona að fólkið í þessu ráðuneyti [fjármálaráðuneytinu] fari að vinna vinnuna sína þannig að það þurfi ekki að verða fyrir svona ónæði,“ sagði Sturla Jónsson, forsvarsmaður atvinnubílstjóra, spurður út í mótmæli bílstjóranna fyrir fram skrifstofur ráðuneytisins í dag.

Bílstjórarnir fjölmenntu við skrifstofurnar og lokuðu fyrir umferð. Þeir þeyttu lúðrana af krafti þannig að hávaðinn var gríðarlegur og vinnufriður enginn. Mótmælin stóðu í rúma klukkustund, en þá yfirgáfu bílstjórarnir svæðið sjálfviljugir.

„Það er ekkert hlustað og þetta er í nefndum. Menn vilja það ekkert meira,“ segir Sturla og bendir á að bílstjórarnir séu að hugsa um almannaheill með aðgerðum sínum. „Menn sjá það í hendi sér að almannaheill er líka það að það sé ekki rænd hjá þeim buddan,“ segir Sturla.

Sturla segir að það sé tvennt ólíkt að ræða við samgönguráðherra eða fjármálaráðherra í tengslum við kröfur bílstjóranna. Hann lýsir yfir ánægju með samskipti sín við Kristján L. Möller samgönguráðherra, og munu þeir funda um málið á morgun.

Engar viðræður hafa hins vegar átt sér stað á milli bílstjóranna og fjármálaráðherra. Þess ber þó að geta að  Árni M .Mathiesen var ekki á skrifstofu sinni í dag vegna veikinda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert