Lyngdalsheiðarvegur boðinn út í næstu viku

Útboð í vegaframkvæmdir á nýjum vegi yfir Lyngdalsheiði verða auglýstar í framkvæmdafréttum Vegagerðarinnar í næstu viku. Þetta kemur fram í Sunnlenska fréttablaðinu í dag.

Svanur Bjarnason, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, segir áætlað að framkvæmdir hefjist í júní.

„Vegurinn er boðinn út á evrópska efnahagssvæðinu. Tilboð í hann verða opnuð 20. maí og framkvæmdir ættu þá að hefjast í lok júní,” segir Svanur en verklok eru áætluð í október 2010.

Vegalagningin hefst austanmegin heiðarinnar en Svanur segir öll leyfi landeigenda liggja fyrir. Viðræður við landeigendur vestan megin séu í ákveðnu ferli enda séu þeir margir. Sá fyrirvari er í útboðsgögnunum að ekki sé hægt að hefja verkið vestan Lyngdalsheiðar fyrr en eftir áramót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert