Geir H. Haarde forsætisráðherra segir það sé mikill samhljómur á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Búkarest um málefni Afganistans. Allir séu sammála um að fylgja þeirri braut sem mörkuð hafi verið. Aðgerðir sem Atlantshafsbandalagið hafi staðið fyrir í Afganistan séu farnar að skipta miklu máli.
Geir, sem staddur er á leiðtogafundi Nató í Rúmeníu, segir að mörg ríki séu að auka við framlag sitt í Afganistan, bæði hernaðarlega og fjárhagslega. “Það er athyglisvert hvað það er lögð mikil áhersla á Afganistan á þessum fundi. Utanríkisráðherra okkar er búinn að vera þar nýlega til að kynna sér ástandið. Það er mál manna að uppbyggingin þar sé farin að ganga tiltölulega vel og það megi ekki slaka í baráttunni við hryðjuverkaöflin sem ella myndu ná yfirhöndinni í því landi,” sagði Geir.
Þessi mál verða rædd betur á sérstökum fundi um Afganistan sem Hamid Karzai forseti Afganistan sækir.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði að í utanríkisráðuneytinu væri núna unnið að þriggja ára áætlun um framlög okkar til Afganistan, bæði hvað varðar mannafla og fjárframlög. Líta mætti á þessa áætlun sem skuldbindingu til næstu þriggja ára.