Fjöldi atvinnubílstjóra lagði af stað frá Öskjuhlíð nú klukkan tólf og er förinni heitið að fjármálaráðuneytinu við Arnarhvol við Lindargötu þar sem þeir ætla að liggja á flautunni.
Að sögn Sturlu Jónssonar, eins talsmanns bílstjóranna, er aðgerðum beint gegn ríkisstjórninni en ekki almennum borgurum og vilja þeir valda sem minnstum truflunum á umferð.
Tekur hann fram að þrátt fyrir að bílstjórarnir hafi truflað umferð undanfarna daga þá hafi þeir hleypt neyðarumferð fram hjá. „Ég held að menn myndu gera allt til þess að trufla ekki neyðarumferð, hvort sem það þarf að keyra niður girðingar á okkar stóru bifreiðum eða annað," sagði Sturla í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.
Ekki liggur fyrir hver verða næstu skref bílstjóranna en að sögn Sturlu er mikill hiti í mönnum og þeir ekki á því að hætta aðgerðum fyrr en ríkisvaldið fer að kröfum þeirra um lækkun á álögum ríkisins á atvinnubílstjóra og bætta aðstöðu fyrir þá á landsbyggðinni svo þeir geti uppfyllt skilyrði sem sett eru um lögboðinn hvíldartíma atvinnubílstjóra.