Rannsóknir verða veigameiri þáttur í starfsemi Barnaverndarstofu á næstu árum, að því er fram kemur í viðamikilli þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í barnaverndarmálum sem félagsmálaráðherra leggur fyrir Alþingi á næstunni.
Nú þegar er hafin rannsókn á framburði barna sem koma í Barnahús vegna gruns um kynferðislegt ofbeldi en markmiðið er að skoða í hvaða tilvikum ákæra er gefin út og hvað það er í framburði barna sem leiðir til þess. Jafnframt verður ráðist í athugun á líkamlegu ofbeldi gegn börnum og verða allar tilkynningar til barnaverndarnefnda um slíkt ofbeldi á árinu 2006 skoðaðar. „Oft hafa vaknað spurningar um hlutfall tilkynninga vegna líkamlegs ofbeldis gagnvart börnum sem virðist lægra á Íslandi en hjá ýmsum vestrænum þjóðum. Ein skýringin kann að vera sú að vandinn sé duldari hér en víða erlendis,“ segir í greinargerð með þingsályktunartillögu félagsmálaráðherra og jafnframt kemur fram að þekking á áverkum barna hafi verið takmörkuð sem aftur hafi dregið úr líkum á því að mál komi inn á borð barnaverndaryfirvalda.