„Við fögnum þessu og erum mjög ánægð með að loksins skuli vera komin tímasetning á þetta,“ sagði Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, um nýtt frumvarp sem varðar niðurfellingu stimpilgjalda af fyrstu íbúð.
Grétar sagði að fasteignasalar hefðu viljað sjá þetta gerast fyrr. Hann sagði einnig að menn óttuðust að ákvæði frumvarpsins um að lögin taki gildi 1. júlí næstkomandi mundi mynda ákveðna stíflu þangað til á fasteignamarkaði. Með því væri óbeint verið að ýta undir að fólk biði með fasteignakaup þangað til. Hættan væri sú að þá mundi stíflan bresta og margir kaupendur koma inn á markaðinn. Snögg aukning eftirspurnar á fasteignamarkaði gæti leitt til hækkunar fasteignaverðs. Afnám stimpilgjalda skiptir fólk miklu og nefndi Grétar til dæmis að fólk sem tekur 25 milljóna króna lán mundi spara sér tæpar 400 þúsund krónur. Hann telur að ríkisstjórnin hefði átt að ganga lengra.
„Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar segir að fella eigi stimpilgjöldin niður á þessu kjörtímabili. Það er ljóst að það munu koma upp vandamál við að skilgreina hvað sé fyrsta eign og ýmis túlkunarvandamál. Auðvitað hefði verið langfarsælast að stíga skrefið til fulls og fella stimpilgjöldin alfarið niður,“ sagði Grétar.