Telur fleiri munu slást í lið með IKEA

Grétar Þorsteinsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sá í gær ástæðu til að hringja í Þórarin Ævarsson, framkvæmdastjóra IKEA, til að þakka honum fyrir framlag hans í umræðuna um verðhækkanir. Þórarinn gagnrýndi í viðtali í Morgunblaðinu innflytjendur fyrir að hækka vörur sínar strax og sagði enga ástæðu til þess.

„Já, ég verð að segja eins og er að það hafa orðið þó nokkur viðbrögð,“ sagði Þórarinn aðspurður í gær hvort hann hefði fengið mikil viðbrögð við gagnrýni sinni. „Mér fannst mjög skemmtilegt að heyra í Grétari, við áttum gott samtal. Hans viðbrögð voru þau að honum fannst svo gott að vita til þess að einhverjir í mínum hópi hugsuðu ekki á sömu línu og allir hinir,“ segir Þórarinn og nefnir einnig fréttatíma á Stöð 2 þar sem sýnt var frá fundi viðskiptaráðherra, verkalýðsforystunnar og Neytendasamtakanna. „Niðurlag þeirrar fréttar var að menn voru mjög ánægðir með það sem kom fram í Morgunblaðinu,“ segir Þórarinn og bætir við að forystugreinin í Morgunblaðinu í gær hafi verið gríðarlega sterk. „Hún dregur línuna mjög skýrt. Ég finn það að Morgunblaðið er að veita okkur mikinn stuðning með þessu og bakka okkur upp.“ Þórarinn segist jafnframt hafa heyrt frá fjölda viðskiptavina og að bloggheimurinn hafi logað.

„Nú vonar maður bara að krónan fari að styrkjast,“ segir hann. „Ég held líka og er viss um að þessi grein í Mogganum í gær [fyrradag] hafi orðið kveikjan að því að olíufélögin lækkuðu í dag [í gær].“ Hann klykkir út með því að hann sé sannfærður um að fleiri muni slást í lið með IKEA. „Það er náttúrlega það sem þarf því annars fer verðbólgan út í einhverja vitleysu. Það er bara þannig.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert