Það er ámælisvert að ríkisstjórnin skuli hundsa lögbundna samráðsskyldu sína við Alþingi, sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, á Alþingi í gær. Hann var ósáttur við að ekki hefði verið orðið við beiðni hans um að utanríkisráðherra og forsætisráðherra kæmu fyrir nefndina áður en þeir héldu til Búkarest til að sitja leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins. „Þar með gerist það enn að utanríkismálanefnd er sniðgengin í aðstæðum sem þessum. Þó eru á dagskrá NATO-fundarins í Búkarest óvenjumörg og óvenjustór og óvenjuumdeild álitamál, eins og möguleg aðild Úkraínu og Georgíu að NATO, eldflaugavarnarkerfi Bandaríkjamanna í Miðaustur-Evrópu, staðan í Afganistan og fleira,“ sagði Steingrímur.