Vilja bæta ásýndina

Mikil umræða hefur verið um slælegt ástand miðborgar Reykjavíkur – niðurnídd hús, sóðaskap og ofbeldisverk. Ólafur F. Magnússon borgarstjóri og starfsmenn Reykjavíkurborgar vilja nú snúa dæminu við og kynntu í dag aðgerðaráætlun til eflingar miðborginni.

Helstu markmið eru þau að gera borgina hreinni, bæta sambúð ólíkra hagsmunaaðila, bæta samgöngur um nætur, tryggja meira öryggi og efla eftirlit, auk þess sem stefnt er að því að draga úr ölvun á almannafæri. Hét Ólafur því að hann myndi láta verkin tala.

Nú þegar hefur verið hafist handa við að bæta ásýnd Laugavegarins og munu 20 til 30 manns taka þátt í því verki næstu daga. Fjarlægja á rusl, mála yfir veggjakrot og einnig er hafin skráning á öllum húsum í miðborginni sem eru mannlaus og hætta getur stafað af. Borgarbúar eru hvattir til að taka þátt í fegrun miðborgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert