Ræddi framboð Íslands í öryggisráðið

Frá atkvæðagreiðslu öryggisráðsins
Frá atkvæðagreiðslu öryggisráðsins AP

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra sagði erfitt að meta hversu raunhæfa möguleika Ísland ætti að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Hún ræddi framboðið við forystumenn sem sóttu fund Atlantshafsbandalgsins í Búkarest í Rúmeníu.

Greidd verða atkvæði um framboð í öryggisráðið í október nk. Ingibjörg Sólrún sagðist ekki treysta sér til að spá fyrir um líkur á að Ísland næði kjöri í ráðið.

„Þetta mun ekkert skýrast fyrr en í sjálfri atkvæðagreiðslunni vegna þess að þó að við séum komin með heilmikið af loforðum, bæði munnlegum og skriflegum, þá er það þannig að maður veit aldrei hvað það heldur vegna þess að þegar til kastanna kemur eru það fastafulltrúarnir í New York sem greiða atkvæði. Þetta er leynileg atkvæðagreiðsla og hvað þeir nákvæmlega gera veit enginn,“ sagði Ingibjörg Sólrún.

Ingibjörg Sólrún sagði að ef Ísland yrði kosið í öryggisráðið yrðu íslensk stjórnvöld að búa sig undir þetta stóra verkefni. Þetta myndi kosta heilmikla endurskipulagningu á utanríkisþjónustu landsins. Ef við kæmumst ekki í ráðið væri framboðið engu að síður búið að skila þeim árangri að málstaður Íslands hefði verið styrktur erlendis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert