Alcoa er að skoða sömu framleiðslutækni fyrir fyrirhugað álver á Bakka við Húsavík og notuð er í álveri Alcoa Fjarðaáls á Reyðarfirði. Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, segir að hagkvæmast yrði að byggja nákvæmlega eins álver á Bakka og nú er á Reyðarfirði. „Það vildum við helst gera en við erum að skoða minna álver,“ sagði Tómas í samtali við Morgunblaðið.
Tæknin sem miðað er við að nota á Bakka getur framleitt 250 þúsund tonn af áli á ári. Með meiri fjárfestingu, lengri kerskála og stærra álveri má nota sömu tækni til að framleiða allt að því jafn-mikið og nú er gert hjá Alcoa Fjarðaáli þar sem eru framleidd 342 þúsund tonn á ári.
Tómas sagði horft á 250 þúsund tonna framleiðslugetu á Bakka vegna þess að miðað væri við að hægt yrði að útvega þar 400 MW raforku. „Það eru megavöttin sem skipta máli í þessu sambandi en ekki tonnin af áli,“ sagði Tómas. Stöðug þróun er í áliðnaði. Tómas nefndi að árið 2003 var miðað við að álver Fjarðaáls myndi framleiða 322 þúsund tonn af áli. Vegna tækniframfara er nú framleitt þar 20 þúsund tonnum meira á ári með sömu orkunotkun. Tómas sagði að til lengri tíma litið megi því búast við að hægt verði að framleiða meira ál á Bakka en nú er ráðgert vegna tækniframfara. Fáist næg orka til stækkunar og tilskilin leyfi komi einnig til greina að stækka fyrirhugað álver á Bakka.