Húsfyllir var fundi Vinstri grænna um efnahagsvandann, sem haldinn var á Akureyri í gær. Fundaröð flokksins um þetta mál verður svo fram haldið í dag á Neskaupstað og Grindavík, að því er segir í tilkynningu frá VG í morgun.
Steingrímur J. Sigfússon og Svandís Svavarsdóttir héldu framsögu á fundinum á Akureyri, og voru fjörugar umræður á eftir, segir í tilkynningunni.
Í dag heldur fundaröðin áfram með fundi í Egilsbúð á Neskaupstað klukkan 13 þar sem Ögmundur Jónasson og Þuríður Backman halda framsögur.
Í kvöld mæta svo Steingrímur J. Sigfússon og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir á Kaffi Grindavík og hefst fundurinn klukkan 20.