Atvinnubílstjórar gerðu hlé á mótmælum um helgina en buðu þess í stað gestum sýningarinnar Sumarið 2008 í Fífunni upp á góðgerðir. Þeir söfnuðu einnig undirskriftum þar sem fólk skrifaði undir mótmæli gegn háum eldsneytisgjöldum ríkisins. Safnaðist hátt á annað þúsund undirskrifta, að sögn Sturlu Jónssonar.
Bílstjórar hittust í gærkvöldi til að skipuleggja frekari mótmælaaðgerðir. Sturla vildi ekki upplýsa nákvæmlega hverjar þær yrðu. „En við ætlum ekki að vera í umferðinni,“ sagði Sturla.
Bílstjórarnir hafa opnað vefsvæðið www.samtaka.net þar sem eru upplýsingar um söfnunarreikning til að standa straum af mögulegum sektum, spjallkerfi og fleira.