Staðan á Íslandi gæti verið Skotum víti til varnaðar í baráttu þeirra fyrir sjálfstæði frá Bretlandi. Þetta kom fram í grein í blaðinu Sunday Herald um helgina.
Þar er stöðu mála í íslenzku efnahagslífi lýst og bent á að landið sé ríkt og efnahagurinn traustur og byggist á endurnýjanlegum orkulindum, fiski, ferðamennsku og fjármálastofnunum. Engu að síður sé landið of lítið til þess að geta varizt atlögum mjög stórra aðila úti í heimi á efnahaginn, meðal annars með því að taka svokallaðar skortstöður. Íslendingar hafi lifað of hátt í góðærinu og gjaldi þess nú.
Þá segir í greininni að efnahagur Skotlands sé á vissan hátt líkur hinum íslenzka og byggist á svipuðum grunni. Munurinn sé reyndar sá að ekki ríki góðæri í Skotlandi eins og á Íslandi áður en gengi krónunnar fór að falla. Hins vegar megi búast við góðæri samfara sjálfstæði og þá verði að fara varlega. Annars sé helsti lærdómurinn að draga af Íslendingum sá að vera ekki of háðir bönkunum.