Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segist telja nauðsynlegt að ræða ferðamáta íslenskra ráðamanna í víðara samhengi en gert hafi verið hér á landi að undanförnu.
„Ég held að menn verði að átta sig á því og búa sig undir það að ákveðnum tilvikum þurfi íslenskir ráðamenn eins og ráðamenn í öðrum löndum að ferðast með leiguflugi," sagði hún er blaðamaður mbl.is ræddi við hana í dag.
„Þetta á ekki síst við um okkur sem sem erum svona fjarri helstu flugleiðum í álfunni. Við þurfum stundum á því að halda að spara tímann okkar þannig að ég held að þetta sé ferðaleið sem verði alltaf notuð og geri reyst nauðsynleg í ákveðnum tilvikum."
Spurð um það hvort hún telji þörf á því að tekið sé tillit til hluta eins og útblásturs gróðurhúsalofttegunda við val fundarstaða í alþjóðlegu samstarfs segir hún að þó mikilvægt sé að fólk sé meðvitað um slík sjónarmið þá geti verið mjög erfitt að samræma þau öðrum sjónarmiðum.„Þetta er alls ekki einfalt þar sem við viljum ekki útiloka þá sem búa afskekkt. Hér á landi teljum til dæmis mikilvægt að halda stundum fundi eða ráðstefnur úti á landi," sagði hún.
„Við verðum líka að passa okkur á því að vera ekki með skinhelgi í þessari umræðu. Það er alveg þekkt hér innanlands að þingmenn taki sig saman og leigi flugvélar til að ná á stuttum tíma á fleiri en einn stað í kjördæmum sínum. Það er í raun enginn grundvallarmunur á því og að taka leiguflugvél saman til útlanda."