Páll Heimisson, alþjóðafulltrúi Sjálfstæðisflokksins, var kjörinn formaður DEMYC, Evrópusamtaka ungra hægri manna á aðalfundi samtakanna í Aþenu um helgina. Er Páll fyrsti Íslendingurinn til að gegna formennsku í þessum samtökum en hann hefur setið í stjórn þeirra undanfarin ár.
Markmið samtakanna er að auka samvinnu og samstarf meðal aðildarfélaga sinna og ungs fólks í Evrópu og hafa þau meðal annars beitt sér fyrir lýðræðisumbótum og réttindum ungs fólks í löndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum, með sérstakri áherslu á málefni Hvíta-Rússlands að undanförnu. Samtökin voru stofnuð árið 1964 og eru regnhlífarsamtök fyrir ungliðahreyfingar hægri flokka í Evrópu.
Páll sat í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna frá 2005 til 2007 og gegndi stöðu alþjóðaritara SUS frá 2006 til 2007. Hann hefur starfað sem alþjóðafulltrúi Sjálfstæðisflokksins frá því í janúar á þessu ári.
Páll er með BA-gráðu í þýsku frá Háskóla Íslands, leggur stund á nám í lögfræði og meistaranám í Evrópufræðum en hann var m.a. formaður Arminíusar, félags þýskunema við HÍ.