Geir: Ekki þörf á endurskoðun

Geir H. Haarde forsætisráðherra segist ekki telja þörf á endurskoðun á því hvernig ákvarðanir um ferðir opinberra starfsmanna séu teknar þrátt fyrir þá umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um leiguflug opinberra sendinefnda á milli landa.  „Ég reyni að fara hagkvæmustu leiðina í hvert einasta skipti. Þegar menn eru að fara á afskekkta staði sem erfitt er að komast á þá getur það verið fyllilega réttlætanlegt til að spara tíma að leigja til þess flugvélar," sagði Geir er blaðamaður mbl.is ræddi við hann í dag.. „Ég geri ekki mikið af því en ég geri það þegar það er nauðsynlegt til að ég geti sinnt mínum störfum og gert allt að sem ég þarf að komast yfir í mínu starfi." 

Spurður um það hvort tekið hafi verið tillit til áhrif útblásturs gróðurhúsalofttegunda þegar ákveðið var að taka leiguflug vegna ferða hans til rúmeníu og Svíþjóðar, segir hann að það hafi ekki verið gert ekki.

„Ég sé ekki hvernig hægt sé að reikna það nákvæmlega út eða hvernig hægt er að meta slíkt til fjár," sagði hann. „Við verðum að koma þarna hópi fólks á afskekkta staði og þetta er hagkvæmasta leiðin til þess. Þetta er ekkert flóknara en það. Þetta er einfaldur útreikningur þar sem áhersla er lögð á kostnað og tíma okkar," sagði hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert