Mikið tjón varð þegar eldur kom upp í hesthúsi í Hafnarfirði í nótt. Dýralæknir meðhöndlaði og skoðaði í dag átta hesta, sem bjargað var úr brennandi húsinu, meðal annars vegna reykeitrunar.
Eðalhross voru í hópnum, þeirra á meðal hinn landsþekkti gæðingur og heiðursverðlaunahestur Kraflar frá Miðsitju. Hann var einn af þeim sem var gefið súrefni og önnur viðeigandi meðferð.
Segja má að hestarnir hafi sloppið með skrekkinn. Þó má gera ráð fyrir að þeir hafi verið mjög skelkaðir áður en hjálp barst, því rúður brotnuðu og snarkað hefur í eldsmatnum hinum megin við vegginn, en eldurinn logaði í kaffistofu og hnakkageymslu. Talsverður reykur barst yfir í hesthúsið sjálft.
Lögreglan í Hafnarfirði í samvinnu við slökkviliðið vinnur nú að rannsókn málsins, en af ummerkjum að dæma er talið fullvíst að um íkveikju hafi verið að ræða. Ljóst er að tjónið er mikið, en tvennt er talið hafa valdið úrslitum um að ekki fór verr; skjót viðbrögð slökkviliðsmanna annars vegar og sérlega góður frágangur í húsinu og öflugar eldvarnir hins vegar.