Indversk stjórnvöld hafa ákveðið að veita forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, Nehru verðlaunin fyrir árið 2007, en þau eru æðsta viðurkenning sem Indland veitir. Tilkynnt var um þetta í Delhi í morgun. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1965 en þau eru veitt í minningu fyrsta forsætisráðherra Indlands, Jawaharlal Nehru, eftir að landið hlaut sjálfstæði frá Bretum en hann var forsætisráðherra Indlands um tveggja áratuga skeið.
Mahesh Sachdev, sendiherra Indlands á Íslandi, kynnti ákvörðunina á Bessastöðum ásamt forseta Íslands klukkan 11:30. Ólafur Ragnar tekur við verðlaununum í Delhi úr hendi forseta Indlands, Pratibha Devisingh Patil, síðar við hátíðlega athöfn í forsetahöllinni í Dehli að viðstaddri ríkisstjórn og forystusveit Indlands. Auk viðurkenningarskjals og verðlaunagrips fylgir verðlaununum fjárupphæð sem nemur 5 milljónum indverska rúpía eða ríflega 9 milljónum íslenskra króna.
Ólafur Ragnar sagði á Bessastöðum er tilkynnt var um viðurkenninguna að þetta sé mikill og óvæntur heiður.
Í yfirlýsingunni er vikið að forystustörfum Ólafs Ragnars Grímssonar á alþjóðavettvangi og þætti hans við að skapa friðarfrumkvæði sex þjóðarleiðtoga á árunum 1984-89. Indira Gandhi, dóttir Jawaharlal Nehru, og sonur hennar, Rajiv Gandhi, voru þátttakendur í því frumkvæði, en þau gegndu bæði embætti forsætisráðherra á Indlandi.
Árið 2006 féllu verðlaunin í skaut Luiz Inacio Lula da Silva, forseta Brasilíu en árið á undan var það baráttukonan Wangari M. Maathai frá Kenýa sem hlaut þau. Aung San Kuu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Búrma hlaut verðlaunin árið 1994, Jasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, árið 1989 og Olaf Palme 1985. U Thant, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna varð fyrstur til þess að fá verðlaunin árið 1965 en árið á eftir féllu þau í skaut Martin Luther King. Móðir Theresa hlaut verðlaunin árið 1969 og Nelson Mandela árið 1979.