Forseti Íslands hlýtur Nehru verðlaunin

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Mahesh Sachdev, sendiherra Indlands …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og Mahesh Sachdev, sendiherra Indlands á Íslandi mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Indversk stjórnvöld hafa ákveðið að veita forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, Nehru verðlaunin fyrir árið 2007, en þau eru æðsta viðurkenning sem Indland veitir. Tilkynnt var um þetta í Delhi í morgun. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1965 en þau eru veitt í minningu fyrsta forsætisráðherra Indlands, Jawaharlal Nehru, eftir að landið hlaut sjálfstæði frá Bretum en hann var forsætisráðherra Indlands um tveggja áratuga skeið.

Mahesh Sachdev, sendiherra Indlands á Íslandi, kynnti ákvörðunina á Bessastöðum ásamt forseta Íslands klukkan 11:30. Ólafur Ragnar tekur við verðlaununum í Delhi úr hendi forseta Indlands, Pratibha Devisingh Patil, síðar við hátíðlega athöfn í forsetahöllinni í Dehli að viðstaddri ríkisstjórn og forystusveit Indlands. Auk viðurkenningarskjals og verðlaunagrips fylgir verðlaununum fjárupphæð sem nemur 5 milljónum indverska rúpía eða ríflega 9 milljónum íslenskra króna.

Ólafur Ragnar sagði á Bessastöðum er tilkynnt var um viðurkenninguna að þetta sé mikill og óvæntur heiður.

Í yfirlýsingunni er vikið að forystustörfum Ólafs Ragnars Grímssonar á alþjóðavettvangi og þætti hans við að skapa friðarfrumkvæði sex þjóðarleiðtoga á árunum 1984-89. Indira Gandhi, dóttir Jawaharlal Nehru, og sonur hennar, Rajiv Gandhi, voru þátttakendur í því frumkvæði, en þau gegndu bæði embætti forsætisráðherra á Indlandi.

Árið 2006 féllu verðlaunin í skaut Luiz Inacio Lula da Silva, forseta Brasilíu en árið á undan var það baráttukonan Wangari M. Maathai  frá Kenýa  sem hlaut þau. Aung San Kuu Kyi, leiðtogi stjórnarandstöðunnar á Búrma hlaut verðlaunin árið 1994, Jasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, árið 1989 og Olaf Palme 1985. U Thant, fyrrum aðalritari Sameinuðu þjóðanna varð fyrstur til þess að fá verðlaunin árið 1965 en árið á eftir féllu þau í skaut Martin Luther King. Móðir Theresa hlaut verðlaunin árið 1969 og Nelson Mandela árið 1979.

Listi yfir þá sem hafa hlotið verðlaunin hingað til

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert